Sjónvarpsrýni: Feðgar og dauðir menn á ferð Heiðar Sumarliðason skrifar 13. apríl 2023 08:48 John Stonehouse er til umfjöllunar í nýrri þáttaröð sem Stöð 2 sýnir. Þar sem þessi rýnir hefur ekki tíma til að klára allar þáttaraðir og skrifa ítarlega dóma um þær hefur hann öðru hvoru brugðið á það ráð að fara yfir nokkrar seríur á hundavaði. Hér er umfjöllun um fjórar slíkar. Stonehouse - Stöð 2 „Kostuleg“ er fyrsta orðið sem mér dettur í hug til að lýsa þriggja hluta míníseríunni Stonehouse sem nú er hægt að sjá á Stöð 2+. Í þáttaröðinni, sem byggð er á sannsögulegum atburðum, leikur Matthew Macfayden breska þingmanninn John Stonehouse. Stonehouse þessi vann sér það helst til frægðar að setja á svið eigin dauða árið 1974 og er havaríið í kringum þann sirkus stór hluti af framvindu þáttanna. Milli steins og sleggju. Eins og áður sagði er það Matthew Macfayden sem leikur þingmanninn vafasama, en hann er helst þekktur fyrir túlkun sína á hinum vandræðalega Tom Wambsgans í HBO-þáttaröðinni Succession (Stöð 2 sýnir nú nýjustu þáttaröðina). Ef þú hélst að ekki væri hægt að finna kauðalegri gaur fyrir hann til að leika en fyrrnefndan Tom, þá setur John Stonehouse ný viðmið. Sennilega nægir ekki stakt lýsingarorð til að lýsa þingmanninum fyrrverandi, það þarf nokkur. Hann var líklegast siðblindur, eða a.m.k. siðlaus; hann var hræsnari; einnig var hann aumingi. Það sem hann var þó ekki er sá lúði sem Macfayden túlkar hann sem. Framsetningin á Stonehouse nær því ekki sannsögulegum núönsum, heldur er þáttaröðin kómísk túlkun á sögu hans. Sem slík virkar hún mjög vel og er áhorfsins virði. Rabbit Hole - Sjónvarp Símans Kiefer Sutherland er eins Marteinn Mosdal, hann kemur alltaf aftur. Aftur og aftur og aftur. Það er ávallt hægt að bóka að þegar einni Kiefer seríu lýkur er aldrei langt í þá næstu. Ég verð að játa að ég vissi ekki einu sinni að síðasta þáttaröð hans, Designated Survivor, hefði sungið sitt síðasta. En hér er hann þó kominn aftur; enn og aftur. Kiefer í kunnuglegri stellingu. Í Rabbit Hole er hann á kunnuglegum slóðum: Samsæri og byssur; einn á móti ofurefli. Það á ekki að finna upp hjólið. Samkvæmt Imdb.com fjallar Rabbit Hole um: John Weir sjálfstætt starfandi njósnara sem berst fyrir því að viðhalda lýðræðinu í heimi sífelldra erja. Hljómar vel, en eftir fyrstu tvo þættina var ekki enn komið í ljós hvernig Weir tengdist því að bjarga lýðræði heimsins. Hann virtist mestmegnis vera að bjarga eigin skinni. Þetta varð þó allt skýrt í þriðja þætti og kanínuholan dýpkaði. Þessir fyrstu þrír þættir eru beggja blands; sumt fínt, annað klunnalegt. Miðað við fyrrnefnd klunnalegheit er ég á báðum áttum með Rabbit Hole. Ef við lifðum enn á tímum tveggja sjónvarpsstöðva með sinni línulegu dagskrá væri Rabbit Hole þáttaröð sem ég myndi horfa á hvern einasta þátt af. En þar sem möguleikarnir eru óþrjótandi nú til dags með tilkomu streymisveita þá hangir hann á bláþræði. Ef eitthvað nýtt fangar athygli mína er allt eins líklegt að ég horfi ekki á þátt númer fjögur og ég hreinlega gleymi Rabbit Hole. Unstable - Netflix Rob Lowe er líkt og kollegi hans Kiefer sjaldan atvinnu- og aðgerðalaus lengi. Það er líkt og fært hafi verið í bandarísk lög að ávallt þurfi að vera þáttaröð í gangi þar sem hann leikur aðalhlutverkið. Nú er hann m.a.s. með tvær þáttaraðir í gangi í einu. Sjónvarp Símans sýnir þáttaröð hans 911: Lone Star og nú hefur Netflix byrjað að streyma Unstable, gamanþáttaröð um sérvitran vísindamann. Eftir að hafa misst eiginkonu sína reynir hann hvað hann getur til að bæta samband sitt við son sinn. Einnig blandast starfsfólk fyrirtækis hans inn í málin. Feðgar á ferð. Ég er ekki frá því að einhvers staðar undir niðri sé möguleikann á þokkalegri þáttaröð að finna. Vandinn liggur sennilega í skakkri hlutverkaskipan. Ég er ekki að segja að þetta séu slæmir leikarar en sumir þeirra passa bara ekki í hlutverkin. Einnig grunar mig að flöt túlkun þeirra stemmi ekki við stílinn á skrifunum, því má mögulega kenna lögn leikstjórans um. Unstable er ekkert brjálæðislega fyndin þáttaröð, það sem er hins vegar frekar fyndið er að höfundur hennar og annar aðalleikari er John Owen Lowe, sem er sonur hvers? Jú, Rob Lowe. Það sem er enn fyndnara er að varla eru nokkur kredit að finna á Imdb.com-síðunni hans sem ekki eru fengin í gegnum pabba gamla. Hann viðurkennir þó að hann er „nepo baby.“ Það er hægt að bera virðingu fyrir því og afstaða hans gagnvart stöðu sinni í lífinu er ótrúlega þroskuð og satt best að segja er hann ekkert verri en flestir meðal sitcom leikarar. Mun Unstable sleppa úr fallöxinni og önnur sería líta dagsins ljós? Margar mun verri þáttaraðir hafa átt lengri líftíma en eina þáttaröð, því er aldrei að vita. Ég myndi samt ekki leggja peninga á að fleiri þættir af Unstable fari í framleiðslu. You -Netflix Ég kallaði þriðju þáttaröðina af You sjónvarpsheróín í dómi um hana árið 2021. Fjórða þáttaröð kom á Netflix fyrr á þessu ári. Hún er með töluvert breyttu sniði og það fer henni ekki jafn vel. Fyrir það fyrsta gerist hún í Bretlandi. Allar þáttaraðir sem gerast í, og eru teknar upp í Bretlandi hafa yfir sér örlítið dekkri og þunglyndislegri blæ en þær sem skotnar eru í amerísku sólinni. Það er bara eitthvað við þessa grámyglu sem dregur mig niður. Önnur nýjung er sú að „hetjan“ okkar Joe ekki lengur sá bilaðasti á skjánum, heldur er hann hér í greipum annars raðmorðingja. Ég skil vel þá ákvörðun höfundanna að snúa upp á formið, það var búið að þurrausa brunninn um Joe Goldberg sem ástsjúkt illmenni og varð að breyta til. Að sjálfsögðu verður Joe ástfanginn. Því miður finnst mér þetta ekki breyting til hins betra. Þessi fjórða sería var birt í tveimur hollum; fyrri helmingurinn 9. febrúar og sá síðari 9. mars. Ég þrælaði mér í gegnum fyrri hlutann en hef ekki haft rænu á að horfa á þann síðari. Það eru því breyttir tímar þar sem ég horfði á fyrstu þáttaraðirnar í beit á mettíma. Ég sé ekki betur en að von sé á enn einni seríunni af You. Líkurnar á að ég klári þá fjórðu og sjái þá fimmtu eru ekki miklar. Ef hætta ber leik þegar hæst stendur hefðu framleiðendur You mátt fylgja því heilræði. Fyrir mér var lokaþáttur þriðju seríu frábær tímapunktur til að hætta, enda hélt ég sjálfur á þeim tíma að sögunni væri lokið. Bíó og sjónvarp Stjörnubíó Mest lesið Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Lífið Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið Innlit á æfingu Jólagesta: „Allt þarf að taka endi“ Tónlist Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Lífið Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Lífið Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Prinsinn kom á undan Kónginum Lífið Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Lífið Fleiri fréttir Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Stonehouse - Stöð 2 „Kostuleg“ er fyrsta orðið sem mér dettur í hug til að lýsa þriggja hluta míníseríunni Stonehouse sem nú er hægt að sjá á Stöð 2+. Í þáttaröðinni, sem byggð er á sannsögulegum atburðum, leikur Matthew Macfayden breska þingmanninn John Stonehouse. Stonehouse þessi vann sér það helst til frægðar að setja á svið eigin dauða árið 1974 og er havaríið í kringum þann sirkus stór hluti af framvindu þáttanna. Milli steins og sleggju. Eins og áður sagði er það Matthew Macfayden sem leikur þingmanninn vafasama, en hann er helst þekktur fyrir túlkun sína á hinum vandræðalega Tom Wambsgans í HBO-þáttaröðinni Succession (Stöð 2 sýnir nú nýjustu þáttaröðina). Ef þú hélst að ekki væri hægt að finna kauðalegri gaur fyrir hann til að leika en fyrrnefndan Tom, þá setur John Stonehouse ný viðmið. Sennilega nægir ekki stakt lýsingarorð til að lýsa þingmanninum fyrrverandi, það þarf nokkur. Hann var líklegast siðblindur, eða a.m.k. siðlaus; hann var hræsnari; einnig var hann aumingi. Það sem hann var þó ekki er sá lúði sem Macfayden túlkar hann sem. Framsetningin á Stonehouse nær því ekki sannsögulegum núönsum, heldur er þáttaröðin kómísk túlkun á sögu hans. Sem slík virkar hún mjög vel og er áhorfsins virði. Rabbit Hole - Sjónvarp Símans Kiefer Sutherland er eins Marteinn Mosdal, hann kemur alltaf aftur. Aftur og aftur og aftur. Það er ávallt hægt að bóka að þegar einni Kiefer seríu lýkur er aldrei langt í þá næstu. Ég verð að játa að ég vissi ekki einu sinni að síðasta þáttaröð hans, Designated Survivor, hefði sungið sitt síðasta. En hér er hann þó kominn aftur; enn og aftur. Kiefer í kunnuglegri stellingu. Í Rabbit Hole er hann á kunnuglegum slóðum: Samsæri og byssur; einn á móti ofurefli. Það á ekki að finna upp hjólið. Samkvæmt Imdb.com fjallar Rabbit Hole um: John Weir sjálfstætt starfandi njósnara sem berst fyrir því að viðhalda lýðræðinu í heimi sífelldra erja. Hljómar vel, en eftir fyrstu tvo þættina var ekki enn komið í ljós hvernig Weir tengdist því að bjarga lýðræði heimsins. Hann virtist mestmegnis vera að bjarga eigin skinni. Þetta varð þó allt skýrt í þriðja þætti og kanínuholan dýpkaði. Þessir fyrstu þrír þættir eru beggja blands; sumt fínt, annað klunnalegt. Miðað við fyrrnefnd klunnalegheit er ég á báðum áttum með Rabbit Hole. Ef við lifðum enn á tímum tveggja sjónvarpsstöðva með sinni línulegu dagskrá væri Rabbit Hole þáttaröð sem ég myndi horfa á hvern einasta þátt af. En þar sem möguleikarnir eru óþrjótandi nú til dags með tilkomu streymisveita þá hangir hann á bláþræði. Ef eitthvað nýtt fangar athygli mína er allt eins líklegt að ég horfi ekki á þátt númer fjögur og ég hreinlega gleymi Rabbit Hole. Unstable - Netflix Rob Lowe er líkt og kollegi hans Kiefer sjaldan atvinnu- og aðgerðalaus lengi. Það er líkt og fært hafi verið í bandarísk lög að ávallt þurfi að vera þáttaröð í gangi þar sem hann leikur aðalhlutverkið. Nú er hann m.a.s. með tvær þáttaraðir í gangi í einu. Sjónvarp Símans sýnir þáttaröð hans 911: Lone Star og nú hefur Netflix byrjað að streyma Unstable, gamanþáttaröð um sérvitran vísindamann. Eftir að hafa misst eiginkonu sína reynir hann hvað hann getur til að bæta samband sitt við son sinn. Einnig blandast starfsfólk fyrirtækis hans inn í málin. Feðgar á ferð. Ég er ekki frá því að einhvers staðar undir niðri sé möguleikann á þokkalegri þáttaröð að finna. Vandinn liggur sennilega í skakkri hlutverkaskipan. Ég er ekki að segja að þetta séu slæmir leikarar en sumir þeirra passa bara ekki í hlutverkin. Einnig grunar mig að flöt túlkun þeirra stemmi ekki við stílinn á skrifunum, því má mögulega kenna lögn leikstjórans um. Unstable er ekkert brjálæðislega fyndin þáttaröð, það sem er hins vegar frekar fyndið er að höfundur hennar og annar aðalleikari er John Owen Lowe, sem er sonur hvers? Jú, Rob Lowe. Það sem er enn fyndnara er að varla eru nokkur kredit að finna á Imdb.com-síðunni hans sem ekki eru fengin í gegnum pabba gamla. Hann viðurkennir þó að hann er „nepo baby.“ Það er hægt að bera virðingu fyrir því og afstaða hans gagnvart stöðu sinni í lífinu er ótrúlega þroskuð og satt best að segja er hann ekkert verri en flestir meðal sitcom leikarar. Mun Unstable sleppa úr fallöxinni og önnur sería líta dagsins ljós? Margar mun verri þáttaraðir hafa átt lengri líftíma en eina þáttaröð, því er aldrei að vita. Ég myndi samt ekki leggja peninga á að fleiri þættir af Unstable fari í framleiðslu. You -Netflix Ég kallaði þriðju þáttaröðina af You sjónvarpsheróín í dómi um hana árið 2021. Fjórða þáttaröð kom á Netflix fyrr á þessu ári. Hún er með töluvert breyttu sniði og það fer henni ekki jafn vel. Fyrir það fyrsta gerist hún í Bretlandi. Allar þáttaraðir sem gerast í, og eru teknar upp í Bretlandi hafa yfir sér örlítið dekkri og þunglyndislegri blæ en þær sem skotnar eru í amerísku sólinni. Það er bara eitthvað við þessa grámyglu sem dregur mig niður. Önnur nýjung er sú að „hetjan“ okkar Joe ekki lengur sá bilaðasti á skjánum, heldur er hann hér í greipum annars raðmorðingja. Ég skil vel þá ákvörðun höfundanna að snúa upp á formið, það var búið að þurrausa brunninn um Joe Goldberg sem ástsjúkt illmenni og varð að breyta til. Að sjálfsögðu verður Joe ástfanginn. Því miður finnst mér þetta ekki breyting til hins betra. Þessi fjórða sería var birt í tveimur hollum; fyrri helmingurinn 9. febrúar og sá síðari 9. mars. Ég þrælaði mér í gegnum fyrri hlutann en hef ekki haft rænu á að horfa á þann síðari. Það eru því breyttir tímar þar sem ég horfði á fyrstu þáttaraðirnar í beit á mettíma. Ég sé ekki betur en að von sé á enn einni seríunni af You. Líkurnar á að ég klári þá fjórðu og sjái þá fimmtu eru ekki miklar. Ef hætta ber leik þegar hæst stendur hefðu framleiðendur You mátt fylgja því heilræði. Fyrir mér var lokaþáttur þriðju seríu frábær tímapunktur til að hætta, enda hélt ég sjálfur á þeim tíma að sögunni væri lokið.
Bíó og sjónvarp Stjörnubíó Mest lesið Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Lífið Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið Innlit á æfingu Jólagesta: „Allt þarf að taka endi“ Tónlist Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Lífið Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Lífið Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Prinsinn kom á undan Kónginum Lífið Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Lífið Fleiri fréttir Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira