Erlent

Karl Breta­konungur fær sinn eigin kórónu-emoji

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hægra megin á myndinni má sjá nýja kórónutjáknið en vinstra megin má sjá hvernig Karl Bretakonungur lítur út með höfuðfat.
Hægra megin á myndinni má sjá nýja kórónutjáknið en vinstra megin má sjá hvernig Karl Bretakonungur lítur út með höfuðfat. Getty/Stuart C. Wilson

Í tilefni af krýningu Karls þriðja Bretakonungs þann 6. maí næstkomandi hefur Buckingham-höll greint frá nýju opinberu kórónutjákni (e. emoji) sem verður tekið í gagnið frá morgundeginum.

Tjáknið byggir á hinni frægu St. Edwards kórónu, 17. aldar kórónu úr hreinu gulli sem er með fjólubláan hatt og er hluti af bresku krúnudjásnunum sem eru geymd í Lundúnarturni. 

Tjáknið er það fyrsta sem hefur verið búið til sérstaklega fyrir breska krýningarathöfn enda átti sú síðasta sér stað fyrir sjötíu árum þegar tjákn voru ekki til. Hins vegar var búið til tjákn fyrir sjötíu ára afmælishátíð drottningarinnar í fyrra en það var í líki corgi-hundar Elísabetar drottningar.

Undirbúningur fyrir krýninguna sem fer fram 6. maí er í fullum gangi og er sköpun tjáknsins hluti af honum. Aðgangur konungsfjölskyldunnar Twitter hefur undanfarna daga deilt upplýsingum um krýninguna, hvernig hún fer fram og hver skipuleggur hana. Þar má meðal annars sjá gullnu hestakerruna sem Karl og Kamilla munu ferðast með frá Buckingham-höll til Westminster Abbey þar sem athöfnin fer fram.

Þar kemur líka fram að frá tíunda apríl muni kórónutjákn Karls birtast þegar myllumerkin #Coronation, #CoronationConcert, #CoronationWeekend and #CoronationBigLunch eru notuð.


Tengdar fréttir

Kamilla ekki kölluð kona konungs

Krýningarathöfn Karls Bretakonungs fer fram þann sjötta maí næstkomandi. Í boðskorti fyrir athöfnina er Kamilla, eiginkona Karls, kölluð drottning en fram að þessu hafði hún verið kölluð eiginkona konungs (e. queen consort).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×