Innlent

Auknir vatna­vextir og skriðu­hætta á Aust­fjörðum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Gul viðvörun er nú í gildi á Austfjörðum, og verður til klukkan 2 í nótt.
Gul viðvörun er nú í gildi á Austfjörðum, og verður til klukkan 2 í nótt. Vísir/Egill

Gul viðvörun er í gildi á Austfjörðum og verður það fram á aðfaranótt þriðjudags, og líkur á talsverðri rigningu. Búast má við auknum vatnavöxtum í ám og lækjum, með tilheyrandi hættu á flóðum og skriðuföllum. Þá er mögulegt að vatnsveðrið komi til með að raska samgöngum.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands, og er fólk á svæðinu hvatt til að sýna aðgát.  

Af veðrinu á landinu er annars frá því að segja að víðast má búast við hægri breytilegri átt, en austan átta til þrettán metrum á sekúndu norðan- og austanlands. Hiti á landinu verður tvö til tíu stig, en hlýjast verður á Norðvesturlandi.

Á morgun má hins vegar bást við suðvestlægri eða breytilegri átt, yfirleitt fimm til tíu metrum á sekúndu. Rigning eða slydda mun gera vart við sig um norðaustanvert landið, en þó þurrt um norðaustanvert landið. Búist er við lítilli úrkomu seinni partinn á morgun, þó stöku skúrum eða slydduéli suðvestantil. Þá má búast við því að kólni heldur í veðri.

Samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings er ekki von á neinu stórviðri í vikunni, fremur hægum norðlægum eða breytilegum áttum með dálítilli vætu af og til í flestum landshlutum. 

Veðurhorfur næstu daga samkvæmt Veðurstofu Íslands:

Á þriðjudag:

Fremur hæg suðvestlæg eða breytileg átt. Rigning eða slydda með köflum en þurrt um norðaustanvert landið. Úrkomulítið seinni partinn, en stöku skúrir eða slydduél suðvestantil. Hiti tvö til sjö stig að deginum.

Á miðvikudag:

Fremur hæg norðlæg átt með skúrum eða éljum, en víða bjartviðri syðra. Slydda eða rigning á norðanverðu landinu um kvöldið. Hiti eitt til sex stig yfir daginn.

Á fimmtudag:

Hæg suðlæg átt og víða bjartviðri, en stöku slydduél eða skúrir vestantil á landinu. Hiti tvö til átta stig að deginum.

Á föstudag:

Hæg norðlæg átt og víða bjartviðri, en sumsstaðar skúrir eða slydduél um norðanvert landið. Hiti eitt til átta stig yfir daginn.

Á laugardag:

Hæg austlæg átt og víða léttskýjað. Hiti tvö til átta stig yfir daginn.

Á sunnudag:

Suðaustanátt og rigning í flestum landshlutum. Hlýnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×