„Fjárhagsstaðan er erfið hjá sveitarfélaginu og það hefur alveg komið fram í gegnum kosningabaráttuna og í fréttum síðasta árið. Við erum orðin mjög skuldsett. Það hefur verið mikið fjárfest á síðustu árum og sveitarfélagið hefur vaxið mjög hratt. Staðan er alvarleg hjá sveitarfélaginu og við viljum bregðast við strax,“ segir Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs, í samtali við Morgunblaðið.
Samkvæmt úttekt sem unnin var fyrir bæjarstjórn Árborgar og gefin út í janúar 2019 jukust skuldir sveitarfélagsins úr 2,8 milljörðum árið 2002 í 11,1 milljarða árið 2017.
Þá námu heildarskuldir Árborgar 25 milljörðum árið 2021.
Bragi segir í samtalinu við Morgunblaðið að búið sé að vinna áætlun um það hvernig á að komast úr vandanum en hann neitar því að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafi yfirtekið sveitarfélagið.
„Þetta er ekki þannig. Við erum í rauninni í samstarfi við þau um að fá þeirra reynslu og stuðning í þessari endurskipulagningu sem við erum í núna. Þar er sveitarfélagið að sýna frumkvæði í því að hafa samband við innviðaráðuneytið að fyrra bragði. Við viljum þeirra reynslu og aðkomu til að styðja við okkur.“