Hér má sjá þáttinn:
Ekkert plan B
„Fyrstu fimm árin sem ég bjó á Íslandi var ég í svona survival mode. Ég var alltaf að hugsa hvernig getur þetta verið öruggt fyrir mig, því það var aldrei öruggt. En það var bara ekki neitt B plan, ég þurfti að finna leið til þess að geta verið á Íslandi. Mig langaði að búa hér og eyða lífi mínu hérna,“
segir Benjamin og bætir við að á síðasta ári hafi hann loksins náð að slaka á. Hann keypti íbúð og segir að loksins hafi allt meikað sens í lífinu.
„Ég var að vinna endalaust, kannski í hundrað daga í röð, að ýta mér áfram og finna leiðir til að afla peninga. Finna fyrirtæki sem ég gæti deilt sýn minni með og það var mikið afrek að kaupa íbúð.“
„Aldrei séð svona fallegt land“
Hálendið heillar Benjamin mikið og er honum afar minnisstætt þegar hann fór þangað í fyrsta skipti árið 2016.
„Það var vetur og þetta var jeppaferð. Ég vissi ekki neitt og það var allt annar heimur sem ég sá uppi á hálendinu. Þetta var ótrúlega fallegt, ég hef aldrei séð svona fallegt land. Það var allt í snjó og þetta var geggjað minimalískt landslag og svo gott fólk.
Þetta var í fyrsta skipti sem ég fór að djamma uppi á hálendinu með Íslendingum.
Það er eitt að djamma niðri í bæ en þetta er svo mikil menning, að fara svona með Íslendingum upp á hálendið. Allir að syngja og hafa gaman.“