Árásarmaðurinn var 25 ára gamall. Hann hóf skothríð með árásarriflli í Old National Bank í miðborg Louisville í gær. Fimm manns féllu fyrir hendi hans og fleiri særðust áður en lögreglumenn skutu hann til bana. Náinn vinur Andy Beshear, ríkisstjóra Kentucky, er á meðal þeirra fimm sem létust í skotárásinni.
Fórnarlömbin fimm, þrír karlmenn og tvær konur, voru á aldrinum 40 til 64 ára gömul.
Lögregla segir að maðurinn hafi sérstaklega skotið á samstarfsfólk sitt í bankanum. Tilefnið liggi ekki fyrir. Riffilinn, AR-15-árásarriffil, hafi hann keypti löglega viku fyrir árásina. Byssumaðurinn streymdi beint frá árásinni á samfélagsmiðli, að sögn AP-fréttastofunnar.
Washington Post segir að fyrir árásina hafi morðinginn verið í sambandi við að minnsta kosti einn einstakling og sagst vera í sjálfsvígshugleiðingum og að íhuga að valda skaða.
Skotárásin í Louisville var fimmtánda fjöldamorðið í Bandaríkjunum það sem af er ári. Aðeins tvær vikur eru liðnar frá því að fyrrverandi nemandi skaut þrjú börn og þrjá fullorðna til bana í grunnskóla í Nashville í Tennessee, nágrannaríki Kentucky.