Erlent

Norð­menn vísa fimm­tán rúss­neskum sendi­ráðs­starfs­mönnum úr landi

Atli Ísleifsson skrifar
Anniken Huitfeldt er utanríkisráðherra Noregs.
Anniken Huitfeldt er utanríkisráðherra Noregs. EPA

Norsk stjórnvöld hafa ákveðið að vísa fimmtán starfsmönnum rússneska sendiráðsins úr landi.

Frá þessu segir í tilkynningu frá norska utanríkisráðuneytinu. Þar segir að starfsmennirnir séu í raun starfsmenn rússneskrar leyniþjónustu.

Starfsmennirnir þurfa að yfirgefa Noreg sem fyrst og segir í tilkynningunni að norsk yfirvöld muni ekki veita starfsmönnum rússneskra yfirvalda sem starfa við leyniþjónustu vegabréfsáritun.

Ákvörðun norskra stjórnvalda er sögð byggja á þeirri nýju öryggispólitísku stöðu sem uppi sé sem hafi leitt til aukinnar ógnar frá Rússlandi.

Utanríkisráðherrann Anniken Huitfeldt segir að Norðmenn muni ekki heimila veru rússneskra leyniþjónustumanna í Noregi sem séu þar í skjóli stöðu sem erindrekar, að því er segir í frétt NRK.

Norsk stjórnvöld eru sögð hafa lengi fylgst með umræddum fimmtán sendiráðsstarfsmönnum. Norðmenn vísuðu þremur rússneskum leyniþjónustumönnum úr landi í apríl á síðasta ári, nokkrum vikum eftir upphaf innrásar Rússa í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×