Íslenski boltinn

Kemur í ljós á morgun hvort FH megi spila á frjálsíþróttavellinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frjálsíþróttavöllurinn hjá FH.
Frjálsíþróttavöllurinn hjá FH. vísir/vilhelm

Það kemur endanlega í ljós á morgun hvort FH megi spila heimaleik sinn gegn Stjörnunni í Bestu deild karla á laugardaginn á frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika. Aðalvöllurinn er óleikfær.

Fótbolti.net greinir frá því að mótanefnd KSÍ hafi samþykkt undanþágubeiðni FH um að spila leikinn gegn Stjörnunni á frjálsíþróttavellinum. Undanþágan var samþykkt gegn því að FH-ingar uppfylli skilyrði sem snúa að aðstöðu fyrir fjölmiðla og áhorfendur.

Aðstaðan verður tekin út af fulltrúum KSÍ á morgun og þá verður tekin endanleg ákvörðun um hvort spila megi leikinn á frjálsíþróttavellinum.

Leikurinn hefst klukkan 16:00 á laugardaginn en hann var færður fram um klukkutíma vegna leiks FH og Selfoss í átta liða úrslitum Olís-deildar karla í handbolta um kvöldið.

FH vildi upphaflega skipta við Stjörnuna á heimaleikjum en Garðbæingar urðu ekki við þeirri bón Hafnfirðinga. Ástæðan sem Stjörnumenn gáfu var að þeir myndu þá ekki spila heimaleik í sex vikur og að Samsung-völlurinn væri bókaður á laugardaginn.

FH gerði 2-2 jafntefli við Fram í 1. umferð Bestu deildarinnar á meðan Stjarnan tapaði fyrir bikarmeisturum Víkings, 0-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×