Erlent

Flórída bannar þungunar­rof eftir sjö­ttu viku

Hólmfríður Gísladóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Lögin þykja gott veganesti fyrir DeSantis inn í forval Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar.
Lögin þykja gott veganesti fyrir DeSantis inn í forval Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar. Getty/SOPA Images/LightRocket/Paul Hennessy

Ríkisþingið í Flórída í Bandaríkjunum samþykkti í gær frumvarp sem gerir þungunarrof ólöglegt í ríkinu eftir sjöttu viku meðgöngu. Ríkisstjórinn Ron DeSantis studdi frumvarpið og þykir samþykktin sigur fyrir hann, sem sagður er stefna á forsetaframboð.

Þungunarrof var áður bannað í Flórída eftir fimmtándu viku meðgöngu þannig að nú hefur glugginn verið þrengdur til muna. Nú er svo komið að aðgangur kvenna að þungunarrofi í Suðurríkjum Bandaríkjanna er orðinn mjög takmarkaður. 

Í Alabama, Louisiana og Mississippi er þungunarrof alfarið bannað og í Georgíu er það bannað frá þeim tíma sem hjartsláttur barns finnst, sem er í kringum sjöttu viku. Frumvarpið í Flórída verður þó ekki að lögum fyrr en hæstiréttur ríkisins hefur úrskurðað um lögmæti eldri laganna en um það mál er nú tekist.

Gagnrýnendur hafa fordæmt nýju lögin harðlega og meðal annars bent á að fjöldi kvenna hefur ekki hugmynd um að vera óléttur á sjöttu vikum meðgöngu.

Þess bera að geta að í lögunum er að finna nokkrar undanþágur, meðal annars ef líf móðurinnar er í hættu. Þá verður áfram heimilt að framkvæma þungunarrof fram að fimmtándu viku þegar um er að ræða þungun í kjölfar nauðgunar eða sifjaspells.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×