Laskað lið Manchester United vann mjög svo sannfærandi 2-0 útisigur á Nottingham Forest í seinni leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Brasilíumaðurinn Antony skoraði fyrra mark Man Utd og lagði upp það seinna.
Fyrir leikinn í dag voru gestirnir án beggja miðvarða sinna, Raphaël Varane og Lisandro Martínez, sem og vinstri bakvarðanna Luke Shaw og Tyrell Sabitzer. Marcus Rashford er einnig á meiðslalistanum ásamt ungstirninu Alejandro Garnacho. Þá meiddist Marcel Sabitzer í upphitun.
Það virtist þó ekki hafa mikil áhrif á Man United sem henti frá sér 2-0 forystu gegn Sevilla í Evrópudeildinni á dögunum. Liðið var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og þegar hálftími var liðinn þá braut Antony ísinn.
Hann fylgdi þá eftir skoti Anthony Martial sem Keylor Navas varði vel í marki Forest. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins. Í síðari var einnig aðeins eitt mark skorað. Það gerði bakvörðurinn Diogo Dalot eftir frábæran undirbúning Antony.
Lokatölur 2-0 þrátt fyrir mikla yfirburði Man United en Navas var hreint út sagt frábær í marki Forest. Gestirnir voru 69 prósent með boltann, áttu 21 skot – þar af 8 á markið. Þá voru þeir með xG (vænt mörk) upp á rétt rúmlega 4 mörk.
Man United er nú með 59 stig í 3. sæti eftir 30 leiki. Newcastle United er sæti neðar með þremur stigum minna.