Enski boltinn

„Af hverju að ræða um einhvern sem við getum ekki fengið?“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Klopp segir tiltgangslaust að ræða Jude Bellingham.
Klopp segir tiltgangslaust að ræða Jude Bellingham. Vísir/Getty

Jurgen Klopp segir að Liverpool verði að vera raunsætt þegar rætt er um hvað félagið getur gert á félagaskiptamarkaðnum. Í vikunni varð ljóst að liðið er úr leik í baráttunni um ungstirnið Jude Bellingham.

Sagan endalausa um möguleg félagaskipti Jude Bellingham til Liverpool frá Dortmund lauk í vikunni þegar ljóst varð að enska stórliðið hefði dregið sig úr kapphlaupinu um ungstirnið. Liverpool hefur lengi verið á höttunum eftir Bellingham en játaði sig sigraða í vikunni enda verðmiðinn gríðarlega hár.

Klopp hefur gefið út að Liverpool muni láta til sín taka á félagaskiptamarkaðnum í sumar en augljóst hefur veirð á yfirstandandi tímabili að liðið þarf að byggja upp að nýju og þá sérstaklega á miðsvæðinu. Búist er við að Liverpool bæti að minnsta kosti tveimur nýjum miðjumönnum í hópinn í sumar.

Á blaðamannafundi Liverpool í dag sagði Klopp tilgangslaust að ræða um Bellingham.

„Það er í raun ekkert að segja ef ég á að vera hreinskilinn. Ef við tölum ekki um leikmenn sem við semjum við eða ekki, af hverju ættum við að tala um svona sögusagnir eða fréttir? Það er í raun ekkert að segja,“ sagði Klopp.

„Þetta svar mitt er ekki um Jude Bellingham. Af hverju erum við sífellt að tala um einhvern sem við getum ekki fengið? Við getum ekki keypt sex leikmenn á hundrað milljónir punda hvern til dæmis, allir sjá það.“

Klopp sagði nauðsynlegt að skoða hlutina af raunsæi.

„Þú verður að átta þig á hvað þú getur og vinna með það. Hve mikla peninga við höfum og vinna með það. Við erum ekki börn. Spurðu fimm ára gamalt barn hvað það langar í í jólagjöf og það segir Ferrari. Þú myndir ekki segja að það væri góð hugmynd, hann er of dýr og barnið getur ekki keyrt hann.“

„Það er búið að afgreiða þetta mál mjög vel“

Þá var Klopp einnig spurður út í atvikið í leiknum gegn Arsenal þar sem aðstoðardómarinn Constantine Hatzidakis virtist gefa Andy Robertson leikmanni Liverpool olnbogaskot. Enska knattspyrnusambandið ákvað að refsa Hatzidakis ekki sem hélt því fram að um óviljaverk hefði verið að ræða.

„Það er búið að afgreiða þetta mál og það var gert mjög vel. Ég tók ekki eftir þessu í leiknum heldur eftir hann. Ég ræddi við Robbo og alla hina, ekki við aðstoðardómarann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×