Ríkisútvarpið hefur það eftir Sigurði Magnúsi Garðarssyni, forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, að mál nemendanna séu nú í ferli. Þau séu litin sömu augum og annað svindl.
Í samtali við Vísi segir Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs, að slík mál hafi ekki komið upp innan sviðsins. Þó sé starfsfólk vel meðvitað um þann möguleika að svo verði.
„Við erum aðeins að byrja að glíma við þá áskorun sem felst í þessari tækni. Á miðvikudaginn verðum við með þing þar sem við fáum erindi sem fjalla um þetta. Bæði þær áskoranir sem felast í þessu en það eru auðvitað líka tækifæri í þessu. Við erum að stíga fyrstu sporin í þessu," segir Stefán Hrafn.
Góð í sumu, ekki öðru
Hann segir mikilvægt að ná utan um það hvers gervigreind er megnug í dag. Sjá hvað hún getur og hvað hún getur ekki.
„Ég hef verið að prófa mig aðeins áfram í þessu. Þetta virðist geta gert sumt vel, en annað verr,“ segir Stefán og vísar þar til ChatGPT, sem er eitt vinsælasta gervigreindarforrit á vefnum í dag.
„Þetta er að einhverju leyti eltingaleikur. Hvort kemur á undan, vörnin eða vörn gegn vörninni. Það er til búnaður sem greinir hvort texti sé úr svona forriti eða ekki, og svo eru til leiðir til að komast fram hjá því,“ útskýrir Stefán.
Fer gegn grunnreglum
Hann segir að enn eigi eftir að koma í ljós hvernig farið yrði með verkefni sem nemendur skila inn sem sínum eigin en hafa verið unnin af gervigreind, að hluta eða í heild sinni. Þó sé margt í slíkum tilfellum sem líkist svindli eða ritstuldi.
„Þetta er að einhverju leyti svipað. Ef þú ert með texta sem þú skrifar ekki sjálfur en segir að séu þín skrif, þá fer það að einhverju leyti gegn reglum um meðferð heimilda.“