Innlent

Kafarar könnuðu á­stand skipsins

Bjarki Sigurðsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Wilson Skaw er 113 metra langt skip.
Wilson Skaw er 113 metra langt skip. Landhelgisgæslan

Kafarar Landhelgisgæslunnar könnuðu í gærkvöldi ástand flutningaskipsins Wilson Skaw sem strandaði á Húnaflóa í gær. Varðskipið Freyja er á staðnum en skipið er strand við Ennishöfða. Stefnt er að því að losa skipið í dag.

Í gærkvöldi var farið í að koma mengunarvarnagirðingu umhverfis skipið en ekki á að reyna að losa það af strandstað fyrr en á hádegisflóðinu. Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöldi að ekki sé ljóst hvað var til þess að skipið strandaði en hann segir þó að svo virðist sem því hafi verið siglt óhefðbundna leið. 

Skipið, sem er um 4000 brúttótonn og 113 metra langt var á leið frá Hvammstanga til Hólmavíkur þegar það strandaði. Veður er gott á svæðinu og Ásgeir segir áhöfnina hafa það gott um borð.

Klippa: Kafarar kanna stöðuna á Húnaflóa

Könnuðu kafararnir sem sjá má í myndbandinu hér fyrir ofan hvort skemmdir væru í búk skipsins og hversu fast skipið væri. Stefnt er að því að losa það í dag.

„Sem betur fer eru góðar veðuraðstæður og við viljum fara með gát og tryggja að það verði enginn skaði sem hlýst af björgunaraðgerðum. Það er ýmislegt sem getur gerst þegar svona stórt skip strandar. Vegna veðurs getum við gefið okkur rýmri tíma en ella,“ sagði Ásgeir við fréttastofu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×