Þrátt fyrir að engin merki séu um olíuleka kom áhöfnin á varðskipinu Freyju fyrir mengunarvarnagirðingu umhverfis skipið í morgun. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að það hafi verið gert til að gæta fyllsta öryggis.

Kafarar Landhelgisgæslunnar köfuðu að skipinu í gær og sást þá að það situr fast á um fimmtíu metra kafla. Því er ljóst að það verður ekki fært af strandstað fyrr en í fyrsta lagi eftir nokkra daga. „Útgerð skipsins útbýr núna björgunaráætlun eins og lög kveða á um en áhöfnin á Freyju er til taks á svæðinu til að grípa inn í ef þörf krefur,“ segir í tilkynningunni.