Sést hefur til þeirra á fjölförnum stöðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem þau létu vel að hvort öðru.
Fegurðardísin Sóley er 25 ára og á bæði ættir að rekja til Íslands og sömuleiðis til Spánar eins og sjá má á eftirnafni hennar.

Segja má að frægð Rúriks hafi vaxið í veldisvexti á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Rússlandi árið 2018. Eftir leik Íslands við Argentínu fór fylgjendafjöldi Rúriks á Instagram vaxandi úr þúsund yfir í rúma milljón. Langflestir fylgjendur voru konur í Suður-Ameríku.
Rúrik greindi frá því í viðtali við Brennsluna að erfitt væri að finna sér kærustu. Um ákveðið lúxusvandamál væri að ræða. Hann væri að drukkna í skilaboðum og fylgjendum fjölgaði stöðugt.
Rúrik var á þeim tíma eftirsóttur piparsveinn og hafa ástarmál hans verið áhugaefni fjölmargra undanfarin ár. Fljótlega eftir heimsmeistaramótið kynntist hann Nathaliu Soliani, brasilískri fyrirsætu, og voru þau par um tíma. Kom hún meðal annars í heimsókn til Íslands þar sem Rúrik sýndi henni það sem landið hafði upp á að bjóða.
Upp úr sambandi þeirra Nathaliu slitnaði. Í janúar í fyrra sást svo til Rúriks og þýsku leikkonunnar Valentinu Pahde á ferðalagi um Ísland. Þau kynnstu við tökur á þýska sjónvarpsþættinum Let's dance.
Stórstjarna sem getur allt
Rúrik hefur gert garðinn frægan, allt frá löngum og farsælum fótboltaferli til frægðarinnar í Þýskalandi fyrir óaðfinnanlega danstakta sem skiluðu sigri í sjónvarpsþættinum fyrrnefnda, Let‘s dance, árið 2021.
Auk þess söng hann í þættinum The Masked Singer.
Árið 2021 gaf Rúrik út lagið Older sem unnið var í samvinnu við tónlistarmanninn og lækninn, Victor Guðmundsson, betur þekktur sem Doctor Victor.
Stórstjarnan virðist geta allt en hann hefur einnig verið að gera frábæra hluti sem fyrirsæta. Glæsilegt hárið kemur vafalítið að góðum notum í þeim bransa.