Innlent

Myndi vilja sjá arf­gerðar­greiningu á öllu fé á landinu

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Lilja Rannveig segist skilja bændur en fylgja þurfi ráðlegginum vísindamanna.
Lilja Rannveig segist skilja bændur en fylgja þurfi ráðlegginum vísindamanna. Vísir/Vilhelm

Það var þungt hljóð í fólki á fjölsóttum upplýsingafundi sem haldin var í gærkvöldi á Laugarbakka í Miðfirði. Búið er að skera 1400 fjár á síðustu dögum vegna riðu sem upp kom í sveitinni. Fleiri en 300 manns sóttu fundinn og mátti sjá þónokkra þingmenn í salnum sem og Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra.

Fundargestir sóttu nokkuð hart að yfirdýralækni Matvælastofnunnar, Sigurborgu Daðadóttir, en hún sat fyrir svörum ásamt fulltrúm Bændasamtakana og Umhverfisstofnunar. Bændur vonast eftir því að hægt sé að fara aðrar leiðir en að fara beint í niðurskurð á fé. Gunnar Þorgeirsson, bóndi á Efri-Fitjum var sáttur við fundinn og svörin sem bændur fengu.

„Ég er vongóður eftir þennan fund og verð að segja að ég er sáttur við þennan fund og bind miklar vonir við að nú verðin breyting á verklagi þegar upp kemur riða.“

Bændur binda miklar vonir við arfgerðargreiningar á kindum og ræktun á þeim kindum sem mynda náttúrulega mótstöðu við riðusjúkdómnum. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi segir mikilvægt að fagfólk komi að þessum ákvörðunum.

„Ég hef mjög mikinn skilning á beiðnum héðan varðandi niðurskurðinn, það er að segja að það verði leitað annarra leiða. Við fylgjum hins vegar þeim vísindamönnum sem við höfum ráðið til þessara starfa. Við þurfum að veita meira fé til rannsókna á riðu. Ég held að arfgerðargreining sé mikilvæg og myndi vilja sjá greiningu á öllu fé á landinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×