Fótbolti

Dramatík þegar Rómverjar komust í undanúrslitin

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Alltaf stemning í Róm.
Alltaf stemning í Róm. vísir/Getty

AS Roma, Sevilla, Juventus og Bayer Leverkusen eru liðin sem munu skipa undanúrslit Evrópudeildarinnar í ar.

Bayer Leverkusen vann 1-4 sigur á Union St. Gilloise í Belgíu í kvöld og þar með vann þýska liðið einvígið samanlagt 5-2. 

Juventus gerði 1-1 jafntefli við Sporting í Lissabon í kvöld og þar með komust Ítalirnir áfram þar sem þeir unnu 1-0 sigur á heimavelli í fyrri leik liðanna. Góður dagur fyrir Juventus en fyrr í dag fékk lið fimmtán stig til baka í ítölsku úrvalsdeildinni.

Öll dramatíkin var í Róm þar sem lærisveinar Jose Mourinho voru með Feyenoord í heimsókn en fyrri leik liðanna lauk með 1-0 sigri Feyenoord í Hollandi.

Leikurinn var markalaus allt þar til á 60.mínútu þegar Leandro Spinazzola kom Roma í forystu. Igor Paixao jafnaði metin fyrir Feyenoord á 80.mínútu og leit út fyrir að það mark myndi skjóta Feyenoord áfram. Allt þar til Paulo Dybala náði forystunni aftur fyrir Roma á 90.mínútu.

Því þurfti að framlengja leikinn og þar reyndust heimamenn sterkari þar sem Stephan El Sharaawy og Lorenzo Pellegrini voru á skotskónum og tryggðu AS Roma í undanúrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×