New York Times segir Biden munu dvelja í Camp David um helgina, með nánustu fjölskyldu og ráðgjöfum. Unnið er að áætlunum um framboðstilkynninguna en forsetinn ku ekki enn hafa lagt blessun sína yfir fyrirætlanirnar.
Fjölmiðlafulltrúi forsetans, Karine Jean-Pierre, neitaði að tjá sig í samskiptum við New York Times í gær en hafði fyrr um daginn látið þau orð falla á blaðamannafundi að tilkynningin myndi ekki koma frá fjölmiðlaskrifstofu Hvíta hússins.
Biden er 80 ára gamall og nú þegar elsti forsetinn í sögu Bandaríkjanna. Þá verður hann 86 ára þegar næsta kjörtímabili lýkur.
Aldur Biden hefur valdið efasemdum um skynsemi þess að forsetinn sækist eftir endurkjöri en auknar líkur á því að Donald Trump verði forsetaefni Repúblikanaflokksins eru sagðar hafa fylkt ólíkum hópum innan Demókrataflokksins á bak við forsetann.
Ef Biden fer fram þykir nokkuð öruggt að hann sigri forval flokksins örugglega.
Fjárframlög til Trump hafa stóraukist eftir að ákæra var gefin út á hendur honum í New York í tengslum við mútugreiðslur til klámmyndastjörnunnar Stormy Daniels og Biden er nú sagður hafa stefnt mögulegum fjárhagslegum stuðningsmönnum sínum til Washington í næstu viku.
Talið er að kostnaður við kosningabaráttuna muni nema yfir milljarði Bandaríkjadala.