Íris Lilja Þórðardóttir og Bjarki Eyþórsson eignuðust stúlkubarn fyrir fjórum dögum, 17. apríl. Fyrir á parið þriggja ára dreng. Litlu systur var beðið með mikilli eftirvæntingu og fæðingin gekk alveg áfallalaust. En móðirin sá strax að eitthvað var að þegar hún fékk þá stuttu í fangið.
„Svo sest ég upp og horfi framan í hana og segi við læknana: Hún er með Downs. Ég sé það bara strax,“ segir Íris.
„Ég sá þetta líka. Ég vildi samt ekki segja það, láta það út í raunveruleikann einhvern veginn. En svo segir hún [Íris] það. Og þá hrynur allt,“ segir Bjarki.
Viðtal við Írisi og Bjarka sem sýnt var í kvöldfréttum Stöðvar 2 má horfa á hér fyrir neðan.
Fæðingarskrá fyrir síðustu tvö ár á Íslandi er ekki aðgengileg en dóttir Írisar og Bjarka er fyrsta barnið með Downs sem fæðist hér á landi síðan í janúar 2021, að sögn formanns Félags áhugafólks um Downs-heilkennið. Öflug skimun fyrir heilkenninu síðustu ár hefur fækkað fæðingunum niður í nánast enga.
Hefðu þegið meiri tíma
Íris og Bjarki vissu ekki af heilkenni dóttur sinnar fyrr en þau fengu hana í fangið. Ýmis gildi á meðgöngu bentu þó til að stúlkan væri með Downs, áhyggjur sem Íris viðraði við heilbrigðisstarfsfólk.
„Það sem pirraði mig einhvern veginn þegar hún kom í heiminn var að það fyrsta sem poppaði upp í hausinn á mér var bara: Af hverju mér var ekki leyft að taka þessa ákvörðun sjálf? Og það gæti vel verið að ég hefði tekið þessa ákvörðun. En mómentið að fá hana í hendurnar, það er einhvern veginn tekið af mér. Það hefði strax verið skárra ef við hefðum fengið jafnvel þrjár vikur áður en hún kom í heiminn til að meðtaka og vita að hún er eins og hún er,“ segir Íris.
„Mér finnst bara leiðinlegt hvað er auðvelt fyrir einhvern á skrifstofunni að svara símanum og segja: Nei það eru ekki líkur. Í staðinn fyrir að taka mark á mér.“

Blendnar tilfinningar
Greining dóttur þeirra er sannarlega sjokk og þau vissu lítið sem ekkert um heilkennið fyrir fjórum dögum. En foreldrarnir ungu taka einn dag í einu og hjörtu þeirra eru fyrst og fremst full af ást í garð dótturinnar.
„Þetta er svo skrýtið. Þetta er svo mikil sorg. Samt svo mikil gleði. Erfitt að lýsa því,“ segir Bjarki. Íris grípur boltann.
„Vegna þess að við erum að syrgja stelpuna sem við héldum að við myndum fá. En kannski átti hún bara að koma. Maður er alveg fljótur að læra inn á það.“
„Hún er búin að vera eiginlega bara algjör draumur. Hún er búin að gefa okkur svo mikinn tíma í að kynnast sjálfri sér,“ segir Bjarki.
„Og að maður hafi einhvern tímann verið að pæla í að fá bæði kyn, maður sér hvað það skiptir engu máli í stóra samhenginu. Heilbrigt barn er guðsgjöf. Og hún er heilbrigð. Hún er bara aðeins öðruvísi,“ segir Íris.