„Hvað þarf margar ljóskur til að skipta um ljósaperu? Tvær! Eina til að skipta um peru og aðra til að sjúga mig! Þá vitum við það,“ sagði einn keppanda í ræðu sinni í úrslitum MORFÍS, Mælsu og rökræðukeppni framhaldsskólanna, árið 2004. Brandari sem eflaust ætti síður upp á pallborðið hjá áhorfendum í dag, yrði hann sagður í pontu. Versló og MH áttust við - allir keppendur strákar. Kynjahalli sem einkenndi keppnina framan af.
Morfís hefur í gegnum tíðina verið beinlínis fjandsamlegur vettvangur fyrir stelpur, eins og fyrirsagnir sem fréttamaður tíndi til og sjá má í innslaginu hér fyrir neðan sýna glöggt. Þekktasta dæmið er eflaust frá 2008 þegar lið skipað strákum sýndi nektarmynd af kvenkyns mótherja í miðri keppni.
En nú er öldin örlítið önnur. Í úrslitunum næsta föstudag mætast MR og Flensborg - og lið síðarnefnda skólans er eingöngu skipað stelpum, í fyrsta sinn í sögunni sem allsherjar kvennalið nær í úrslit.
Liðsmennirnir, þær Birgitta Rún Ólafsdóttir, frummælandi, Unnur Elín Sigursteinsdóttir, meðmælandi, Perla Eyfjörð Arnardóttir, liðsstjóri og Snædís Petra Sölvadóttir, stuðningsmaður, eru allar á einu máli: það er ákaflega spennandi að skrá sig á spjöld MORFÍS-sögunnar með þessum hætti. Löngu sé kominn tími til að allsherjarkvennalið keppi til úrslita.
Þá segja stelpurnar MORFÍS-menninguna blessunarlega hafa kvenvæðst mjög undanfarið en þær finni enn fyrir gömlum draugum.
„Óviðeigandi skot sem eru að koma frá karlmönnum í liðunum. Kynferðisleg oft,“ segir Birgitta.
„Eins og í síðustu keppni, ég nefni engin nöfn, en þá kemur strákur í liðinu með svarið: Ég frétti að ein í liðinu væri ógeðslega gröð. Við vorum alveg bara já, ókei,“ segir Unnur.
Ítarlegra viðtal við stelpurnar má sjá í innslaginu hér fyrir ofan.