Erlent

Hæsti­réttur Banda­ríkjanna stöðvar bann við þungunar­rofslyfi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Demókratar hafa verið æfir vegna ógildingar dómara í Texas í Bandaríkjunum á markaðsleyfi þungunarrofslyfsins mifepresone. Um sé að ræða stórhættulegt fordæmi. Stjórn Bidens Bandaríkjaforseta hefur beitt sér gegn þróuninni.
Demókratar hafa verið æfir vegna ógildingar dómara í Texas í Bandaríkjunum á markaðsleyfi þungunarrofslyfsins mifepresone. Um sé að ræða stórhættulegt fordæmi. Stjórn Bidens Bandaríkjaforseta hefur beitt sér gegn þróuninni. Getty Images

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur ákveðið að leyfa áfram þungunarrofslyfið mifepristone á meðan málaferli standa yfir. Dómari í Texas ógilti markaðsleyfi matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna (FDA) fyrr í mánuðinum.

Rétturinn úrskurðaði í dag að fyrri ákvörðun dómarans í Texas fengi ekki að standa. Það var í fyrsta skipti sem dómari í Bandaríkjunum hefur hlutast til um leyfisveitingu FDA. Bandaríkjaforseti og hin ýmsu lyfjafyrirtæki hafa varað við þróuninni, enda væri verið að hlutast til um nauðsynleg lyf vegna pólitískrar hugmyndafræði, ekki á grundvelli vísinda.

Málið hefur vakið mikla reiði ytra. Flestir sérfræðingar eru á því að lyfið sé öruggt og dómarinn, Matthew J. Kacsmaryk sem skipaður var í embætti af Donald Trump þáverandi Bandaríkjaforseta, er þekktur andstæðingur þungunarrofs.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sendi frá sér yfirlýsingu um málið 8. apríl síðastliðinn og gagnrýndi málið harðlega. Lyfið hafi verið notað í 22 ár, samþykkt af FDA og milljónir kvenna þurfi á því að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×