Áhöfnin á varðskipinu Freyju mun forfæra farminn um borð í Wilson Skaw. Hluti af farminum verður færður um borð í Freyju og svo aftur um borð í skipið. Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, mun taka nokkra daga að ljúka verkinu.
„Við vonum að þetta leiði til þess að við komum skipinu til Akureyrar,“ segir Ásgeir.
Markmiðið er að stilla Wilson Skaw af og ná flutningaskipinu í jafnvægi. Ásgeir segir skemmdir í skipinu hafa gert það að verkum að ekki sé unnt að draga skipið að svo stöddu. Þetta muni gera skipinu kleift að komast upp að bryggju í Hólmavík. Þar muni bráðabirgðaviðgerð fara fram og á endanum muni skipið fara til Akureyrar.
Farmurinn verði fluttur með því að leggja varðskip Landhelgisgæslunnar upp við hlið flutningaskipsins. Þá muni kranar á hliðum Freyju verða nýttir til þess að færa farminn.
Ekki er vitað hvað olli því að 4000 brúttótonna skipið strandaði. Það kemur í hlut rannsóknarnefndar samgönguslysa og lögreglu að rannsaka málið til hlítar.