Undanfarna tíu daga hafa hörð átök geisað milli vígasveita RSF og súdanska stjórnarhersins. Deilurnar snúast að valdtöku hersins fyrir um einu og hálfu ári síðan. Herinn hefur frá valdtöku heitið því að láta af völdum og koma á þjóðstjórn en ekki staðið við þau loforð.
Hundruð hafa fallið og þúsundir særst í átökum síðustu daga auk þess sem fjöldi fólks hefur flúið heimili sín og til nágrannaríkja. Um helgina réðust ýmis ríki í drastískar aðgerðir til að koma erindrekum sínum frá landinu. Bandaríkin sendu sérsveitir sjó- og flughersins á herþyrlum til að sækja sendiráðsstarfsmenn og fjölskyldur þeirra og Bretland og Grikkland auk annarra ríkja fylgdu fast á hæla.
Stríðandi fylkingar samþykktu í gær að leggja niður vopn í 72 klukkustundir í það minnsta en svo virðist sem þau skilaboð hafi ekki borist til allra. Leiðtogar RSF segja í yfirlýsingu að súdanski stjórnarherinn hafi ekki staðið við orð sín.
„Súdanski stjórnarherinn hefur rofið vopnahléð með því að halda áfram loftárásum á Khartoum. Það er skýrt brot á vopnahlé. Þetta er skýrt merki um að það er engin miðstjórn í stjórnarhernum og ákvarðanir eru teknar í hverju horni,“ segir Mohamed Hamdan Dagalo, leiðtogi RSF, í yfirlýsingu.

„Við hvetjum súdanska stjórnarherinn til að virða vopnahléð og stöðvi kvalir almennra borgara. Við köllum einnig eftir því að alþjóðsamfélagið grípi inní og beiti súdanska herinn þrýstingi til að fara eftir skilyrðum vopnahlésins. Rof á vopnahlénu er skýrt merki um að súdanska herinn þyrsti í stríð og blóðbað. Þetta verður að stöðva. Við hvetjum til friðasamra leiða að friði.“
Þó svo að vopnahléð hafi verið rofið eru átökin í dag alls ekki jafn mikil eða slæm og þau hafa verið undanfarna rúma viku. Bresk stjórnvöld hafa vegna þessa hvatt ríkisborgara sína í Súdan til að grípa tækifærið til að komast úr landi. Bresk herflugvél bíður nú Breta á flugvelli norður af höfuðborginni. Þaðan verður flogið til Kýpur og svo til Bretlands.
Hingað til hefur verið nærri ómögulegt að fara loftleiðina úr landinu vegna árása á flugvelli. Eins og áður segir hafa erlend ríki gripið til þess að fá herþyrlur til að sækja erindreka beinustu leið í sendiráðin en þá hafa einhverjir flúið sjóleiðina. Sádar fóru til að mynda sjóleiðina til Jedda í liðinni viku.