Enski boltinn

Spurðu Guardiola að því hvernig sé hægt að stoppa Haaland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola fagnar með Erling Haland eftir að sá norski hafði átt enn einn markadaginn.
Pep Guardiola fagnar með Erling Haland eftir að sá norski hafði átt enn einn markadaginn. MB Media/Getty Images

Manchester City tekur á móti Arsenal í kvöld í óbeinum úrslitaleik um enska meistaratitilinn.

Arsenal er með fimm stiga forystu á City en Englandsmeistararnir eiga tvo leiki inni og því með málin í sínum höndum.

Norðmenn hafa sérstakan áhuga á leiknum enda norskar stórstjörnur í aðalhlutverki í liðunum tveimur.

Martin Ödegaard er fyrirliði Arsenal og Erling Haaland er langmarkahæsti leikmaður Manchester City og ensku úrvalsdeildarinnar.

Ödegaard er með 12 mörk og 7 stoðsendingar í 31 deildarleik á leiktíðinni en Haaland er með 32 mörk og 5 stoðsendingar í 28 deildarleik.

Haaland er á leiðinni að slá flest met í boði á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni og það eru margir knattspyrnustjórar því að velta því fyrir sér hvernig sé hægt að stoppa hann.

Sá sem þarf ekki að hafa áhyggjur af því er Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Man. City en á blaðamannafundi fyrir leikinn fékk Guardiola sérstaka spurningu frá fréttamanni NRK.

„Hvernig er hægt að stoppa leikmann eins og Erling Haaland,“ spurði norski fjölmiðlamaðurinn.

„Miðað við það sem hann hefur sýnt á sínum ferli, ekki bara hér, þá skil ég það vel að það er mjög erfitt. Ég tel samt sem lið, að þú þarft að reyna þitt besta í að koma í veg fyrir að hann komist í takt við leikinn og fái sem minnst boltann,“ sagði Pep Guardiola.

Pep rifjaði upp hvernig það var að mæta Haaland þegar sá norski spilaði með Borussaa Dortmund.

„Það reyndum við að vera með boltann í 70-80 prósent leiktímans. Þú verður að reyna að halda boltanum sem mest innan þíns liðs. Leikurinn á móti Arsemal verður leikur uppfullur af hröðum sóknum og tæklingum. Markmið er að spila agressífan leik með maður á mann vörn út um allan völl. Þá er markvörðurinn sá eini sem er laus. Það verður samt erfitt,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×