BBC segir frá því að Sararat Rangsiwuthaporn hafi verið handtekin í höfuðborginni Bangkok á þriðjudag í kjölfar rannsóknar lögreglu á dauða vinkonu hennar. Aðstandendur hinnar látnu höfðu tilkynnt lögreglu að mögulega væri maðkur í mysunni eftir að konan hafði látist á ferðalagi með Sararat fyrr í þessum mánuði.
Talsmaður lögreglu segir nú að rannsókn bendi til að Sararat sé grunuð um að hafa banað ellefu til viðbótar, þar með talið fyrrverandi kærasta. Hún neitar sök í málinu, en lögregla hefur hafnað því að veita henni lausn gegn tryggingu. Lögregla telur að Sararat hafi drepið fólkið af fjárhagslegum ástæðum.
Í frétt BBC segir að Sararat hafi ferðast með vinkonu sinni fyrir tveimur vikum til að taka þátt í trúarathöfn búddista við fljót í héraðinu Ratchaburi. Í ferðinni hafi konan hnigið niður og látist við árbakkann. Leifar af blásýru hafi svo fundist í líkama konunnar, en sími, fjármunir og töskur konunnar voru horfin þegar hún fannst.
Lögregla telur að hin fórnarlömbin hafi látist á svipaðan máta og að fyrstu morðin hafi verið framin árið 2020. Lögregla hefur ekki gefið upp hver fórnarlömbin séu, þó að tekið hafi verið fram að í þeirra hópi séu fyrrverandi kærasti konunnar og tveir lögreglumenn.
Lögregla í Taílandi segir að ein vinkona Sararat hafi lánað henni 250 þúsund baht, um milljón króna, og nokkru síðar hafi hún kastað upp og misst meðvitund eftir að hafa farið í hádegismat með Sararat. Hún hafi þó komist lífs af. Sömuleiðis hafi fjölskylda og vinir Sararat tilkynnt um horfna skartgripi og reiðufé.