Körfubolti

„Þinn styrkur - Þeirra styrkur“ er nýtt átak fyrir landsliðskrakka KKÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mörg yngri landslið eru á leiðinni út í sumar til að keppa bæði á EM og NM.
Mörg yngri landslið eru á leiðinni út í sumar til að keppa bæði á EM og NM. @kkikarfa

Körfuknattleikssamband Íslands ætlar að fara nýja leið í að aðstoða leikmenn yngri landsliða sinna að safna pening fyrir verkefnum sumarsins.

Undir lok síðasta árs KKÍ var sett niður um afreksflokk hjá stjórn og afrekssjóði ÍSÍ sem gerir það að verkum að sambandið fær enn minna úr afrekssjóði ÍSÍ. Það hefur mikil áhrif á afreksstarfið og því þarf körfuboltafjölskyldan að fara aðra leið til að fjármagna verkefni landsliðanna.

Í dag hófst því söfnunarátak KKÍ sem er sett af stað til að greiða niður kostnað leikmanna yngri landsliða og fjölskyldna þeirra fyrir verkefni komandi sumars.

KKÍ hefur ákveðið að fara í átak sem snýr því að fá fyrirtæki til að styðja við bakið á yngri landsliðsleikmönnum. Verkfnið kallast „Þinn styrkur - þeirra styrkur”.

KKÍ heldur úti tíu yngri landsliðum sem taka þátt í verkefnum erlendis sem öll taka þátt í NM og EM. Heildarkostnaður við yngri landsliðsstarfið á þessu ári er um áttatíu milljónir og af því þurfa leikmenn og fjölskyldur þeirra að greiða 45-50 milljónir í ferða- og fæðiskostnað, KKÍ þarf að fjármagna 30-35 milljónir.

Flestir leikmenn munu fara bæði á NM og EM og verður heildarkostnaður samtals rúmlega sex hundruð þúsund krónur á þann einstakling og fjölskyldu.

Átak KKÍ snýr því að fá fyrirtæki og einstaklinga til að styðja við bakið á unglingalandsliðunum. Það fjármagn sem safnast nýtist beint til unga fólksins sem leikur með landsliðum KKÍ með því að niðurgreiða þann kostnað sem þau þurfa sjálf að greiða.

KKÍ mun koma fyrirtækjunum sem styðja við bakið á okkar yngri landsliðsfólki í þessu átaki á framfæri með almennum auglýsingum, samfélagsmiðlum og svo í kringum ferðirnar hjá öllum landsliðunum okkar í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×