Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að sjö ár eru frá því Hlíðarendahverfið var tekið undan flugvellinum. Það gerðist að lokum með dómi Hæstaréttar árið 2016, eftir talsverð átök. Núna er komið að því að taka næsta svæði til húsbygginga og það er ekki minna.
Ráðherra flugmála gaf grænt ljós.
„Það er allavega niðurstaðan okkar að það sé ekkert til fyrirstöðu að gera það,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
„Það tekur vissulega langan tíma. Það þurfi að fara þarna í jarðvegsframkvæmdir og aðra þætti, sem gefur okkur þá líka nægilegt tækifæri til þess að fara í hugsanlegar deiliskipulagsbreytingar,“ segir ráðherrann.

Borgin hefur skipulagt 690 íbúðir í hverfinu.
„Áhuginn á hverfinu er sannarlega mikill. Þetta er líklega eitt verðlaunaðasta skipulag sem við höfum staðið fyrir, bæði innanlands og utan,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Starfshópur ráðherra telur raunar að byggðin muni að óbreyttu skerða nothæfi vallarins og að þörf sé á mótvægisaðgerðum. En munu þær fækka íbúðum í nýja hverfinu?
„Nei, það ætti ekki að þýða það,“ svarar borgarstjóri.

Borginni í samvinnu við Isavia er falið að útfæra skipulag hverfisins með það að markmiði að tryggja flug- og rekstraröryggi vallarins.
„En ég held að við séum bara sammála um að gera það sem hægt er til þess að tempra áhrifin þannig að þetta geti farið saman,“ segir Dagur.
„Þessvegna er það niðurstaðan að þrátt fyrir að það sé staðreynd að þessi byggð muni hafa áhrif að með mótvægisaðgerðum sé það talið, af þessum hópi, hægt að bregðast við því á viðunandi hátt,“ segir Sigurður Ingi.

Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna átti fulltrúa í nefndinni, Orra Eiríksson, en hann er flugstjóri hjá Icelandair og verkfræðingur.
-Hvernig líst ykkur atvinnuflugmönnum á þessa niðurstöðu?
„Illa,“ svarar Orri.
„Notagildi vallarins mun skerðast. Það munu verða erfiðleikar í áætlunarflugi. Þetta mun hafa veruleg áhrif á sjúkraflug.“
Notagildi sem varaflugvallar segir hann einnig skerðast.
„Þetta mun valda því að það þarf að nota Glasgow-flugvöll miklu oftar sem varaflugvöll fyrir Keflavíkurflugvöll,“ segir Orri.

En hvenær sér borgarstjóri fram á það að vinnuvélar og byggingarkranar sjáist á Skerjafjarðarsvæðinu?
„Vinnuvélar ættu að geta sést strax á þessu ári. Byggingarkranar kannski á næsta og þá er ekki langt í fyrstu húsin,“ svarar Dagur.
„Að lokum er það pólitísk ákvörðun; ætla menn að skerða notagildi vallarins? Þetta er bara einn nagli í kistuna og það er kannski það sem menn vilja,“ segir Orri Eiríksson, fulltrúi í öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna.
Hér má sjá ítarlegra viðtal við Orra Eiríksson:
Hér má sjá ítarlegra viðtal við Dag B. Eggertsson um niðurstöðuna:
Hér má sjá ítarlegra viðtal við Sigurð Inga Jóhannsson: