Fótbolti

Lúðvík hættir eftir sautján ár í sömu nefnd hjá UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lúðvík S. Georgsson á ársþingi KSÍ í Ólafsvík árið 2020 ásamt Guðna Bergssyni þáverandi formanni KSÍ og Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra KSÍ.
Lúðvík S. Georgsson á ársþingi KSÍ í Ólafsvík árið 2020 ásamt Guðna Bergssyni þáverandi formanni KSÍ og Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra KSÍ. KSÍ

Ísland missir mann úr nefnd hjá Knattspyrnusambandi Evrópu á þessu ári.

Lúðvík S. Georgsson, fyrrverandi stjórnarmaður í KSÍ og fyrrverandi formaður leyfisráðs KSÍ, hættir í leyfisnefnd UEFA á þessu ári vegna aldurstakmarkanna í nefndum UEFA. Knattspyrnusamband Íslands segir frá þessu á miðlum sínum.

Lúðvík verður 74 ára gamall í desember á þessu en hann er fæddur árið 1949.

Lúðvík hefur setið í leyfisnefnd UEFA síðan 2006, eða í sautján ár, en sú nefnd fer með málefni leyfiskerfisins innan UEFA. Í nefndinni sitja jafnan tíu einstaklingar frá jafn mörgum löndum og er valið í nefndina til tveggja ára í senn.

Lúðvík er í dag formaður aðalstjórnar KR en hann á að baki áratuga langt og mikilvægt starf fyrir knattspyrnuhreyfinguna.

Hann sat í stjórn knattspyrnudeildar KR árin 1980 til 1995 og var formaður síðustu fjögur árin. Hann sat síðan í stjórn KSÍ frá 1996 til 2014, meðal annars sem ritari og varaformaður, en hætti í stjórn að loknu ársþingi 2014.

Lúðvík hefur bæði verið sæmdur gullmerki KSÍ og heiðurskrossi ÍSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×