Innlent

Sinu­bruni í Selja­hverfi: Slökkvi­störf gengu greið­lega

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Eins og sjá má náði eldurinn yfir töluvert svæði og mikinn reyk lagði upp í loft frá Rjúpnahæð.
Eins og sjá má náði eldurinn yfir töluvert svæði og mikinn reyk lagði upp í loft frá Rjúpnahæð. Vísir/Steingrímur Dúi

Tekist hefur að slökkva sinubrunann sem upp kom á Rjúpnahæð fyrir ofan Seljahverfið í Reykjavík nú síðdegis. Að sögn Jónasar Árnasonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu, gengu slökkvistörf vel.

Slökkvistörfum lauk störfum um 17:30 en slökkviliðið hafði þá verið á svæðinu í rúma þrjá tíma. Eins og fram kom á Vísi í dag var um að ræða stórt og mikið svæði sem sinubruninn náði til. 

Eldurinn náði í þó nokkur tré á svæðinu og hafði slökkvilið áhyggjur um tíma að erfiðara yrði að ráða niðurlögum hans.

„Um leið og við höfðum komið nægum mannskap á svæðið var þetta minna mál. Eldurinn óx fyrst um sinn frekar hratt þannig tíminn skipti sköpum,“ segir Jónas í samtali við Vísi vegna málsins. 

Eldurinn kviknaði fyrst í lúpínu á hæðinni en gekk svo hratt niður og náði í gróður neðst í brekkunni við skíðabrekkuna í Seljahverfi. Þrjá slökkvibíla þurfti til til þess að ráða niðurlögum eldsins.

Að sögn Jónasar kom ekki til þess að slökkvilið þyrfti að hafa áhyggjur af því að eldurinn gæti náð að breiða úr sér. „En þetta vatt svolítið upp á sig og við vorum sem betur fer fljótir á vettvang.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×