Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir að á aðalfundi hafi komið fram að rekstrartekjur SÁÁ hafi numið rúmum tveimur milljörðum króna 2022 og var rekstrarafkoman neikvæð um 184 milljónir króna.
Þá kemur fram í tilkynningunni að sjálfsaflatekjur SÁÁ hafi numið 570 milljónum króna, seld þjónusta 118 milljónum og framlag á fjárlögum til sjúkrareksturs var 1.330 milljónir króna. Á árinu 2022 hafi 3.500 einstaklingar notið þjónustu SÁÁ og voru þjónustusnertingar 28 þúsund.
Segir í tilkynningunni að með þjónustusnertingu sé átt við hvert skráð tilfelli þar sem viðkomandi er sinnt með einum eða öðrum hætti.
Samþykktu viðamiklar breytingar
Viðamiklar breytingar á samþykktum SÁÁ voru samþykktar á aðalfundinum að því er segir í tilkynningunni og hafa þær verið birtar á vefsíðu samtakanna saa.is.
Á fundinum voru þau Íris Kristjánsdóttir og Sigurður Friðriksson jafnframt útnefnd heiðursfélagar SÁÁ.
Þá fjallaði Anna Hildur á fundinum um þau áform SÁÁ að beina athyglinni í vaxandi mæli að því jákvæða sem fylgir því að ná tökum á fíknsjúkdómnum. Ástæða væri til að tala um gleðina og það nýja og betra líf sem kemur í kjölfarið - allt annað líf.