Körfubolti

Elvar góður í sigri Rytas

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elvar Már og félagar unnu sigur í dag.
Elvar Már og félagar unnu sigur í dag. Vísir/Vilhelm

Elvar Már Friðriksson og félagar hans í Rytas unnu góðan útisigur á botnliði Prienai í litháísku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í dag. 

Elvar og félagar voru í heimsókn hjá botnliði Prienai í dag en lið Rytas er í öðru sæti deildarinnar, aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Zalgiris Kaunas eftir að hafa leikið einum leik meira.

Leikurinn í dag var þó jafn og spennandi. Jafnt var að loknum fyrsta leikhluta en heimaliðið náði frumkvæðinu í öðrum leikhlutanum og komust mest í tíu stiga forystu í stöðunni 48-38. Rytas lokaði leikhlutanum þó ágætlega og staðan í hálfleik var 48-44.

Í síðari hálfleik hélt spennan áfram. Heimaliðið var skrefinu á undan allan þriðja fjórðunginn en gestirnir frá Rytas skoruðu síðustu körfu leikhlutans og komust þá einu stigi yfir 66-65.

Rytas byggði síðan ofan á það forskot í lokaleikhlutanum. Þeir komust fljótlega átta stigum yfir og létu forystuna ekki af hendi eftir það. Lokatölur 97-86 og Rytas nú jafnt Zalgiris Kaunas að stigum en hafa leikið tveimur leikjum meira.

Elvar Már lék í rúmar þrjátíu mínútur fyrir Rytas í kvöld. Hann skoraði  13 stig, tók 2 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Hann setti niður tvö af sex þriggja stiga skotum og var næst hæstur í plús/mínus tölfræði síns liðs sem segir til um hvernig liðinu gengur þegar hann er inni á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×