Manchester City jók forystu sína á toppnum

Gundogan skoraði bæði mörk Manchester City í dag
Gundogan skoraði bæði mörk Manchester City í dag Vísir/Getty

Manchester City vann í dag 2-1 sigur á Leeds United í ensku úrvalsdeildinni og styrkti um leið stöðu sína á toppi deildarinnar.

Leeds United, sem háir nú harða fallbaráttu, mætti í heimsókn á Etihad leikvanginn í dag með nýjan knattspyrnustjóra í brúnni. Reynsluboltinn Sam Allardyce tók við stjórnartaumunum hjá liðinu í vikunni. 

Leikmenn Leeds United voru ekki lengi í paradís undir stjórn nýja stjórans því að á 19. mínútu leiksins kom Ilkay Gundogan Manchester City yfir með marki eftir stoðsendingu frá Riyad Mahrez. 

Gundogan var síðan aftur á ferðinni á 27. mínútu er hann tvöfaldaði forystu Manchester City með sínu öðru marki í leiknum, sem kom einnig eftir stoðsendingu frá Mahrez. 

Rodrigo náði að klóra í bakkann fyrir Leeds United með marki undir lok leiks en nær komust gestirnir ekki. Lokatölur á Etihad leikvanginum 2-1 sigur Manchester City.

Sigur Manchester City sér til þess að liðið styrkir stöðu sína á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Þar er liðið með fjögurra stiga forystu á Arsenal sem situr í 2. sæti deildarinnar og eiga bæði lið eftir fjóra leiki á yfirstandandi tímabili.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira