Eins og fréttastofa hefur fjallað um undanfarna daga liðu fjörutíu mínútur frá því að leiðsögumaður hringdi á neyðarlínuna, eftir að tónlistar- og leiðsögumaðurinn Hjörtur Howser hné niður við Gullfoss, og þar til sjúkrabíll kom á vettvang. Sjúkrabíllinn þurfti að koma frá Selfossi en viðbragðssveitir björgunarsveitarinnar Flúðum voru þó komnar nokkru áður.
Hjörtur var úrskurðaður látinn á staðnum en eftir þetta hafa leiðsögumenn og fleiri í ferðaþjónustu kallað eftir bættri neyðarþjónustu við þessa helstu ferðamannastaði, ekki síst vegna gríðarlegri fjölgun ferðamanna. Von er á 2,3 milljónum erlendra ferðamanna til landsins á árinu ef spár rætast.
Finna vel fyrir fjölgun ferðamanna
Aðalvarðstjóri sjúkraflutninga á Suðurlandi segir viðbragðsaðila hafa fundið mikið fyrir auknum ferðamannafjölda.
„Það hefur ekki farið fram hjá okkur og við finnum vel fyrir þessu með auknum útkallafjölda,“ segir Þorsteinn Hoffritz, aðalvarðstjóri sjúkrafluninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Eftir slysahrinu í Silfru á Þingvöllum fyrir nokkrum árum voru öryggismál tekin föstum tökum. Nú er þar sjúkraflutningamaður, útbúinn öllum helstu tækjum, staddur á svæðinu alla daga ársins frá níu til fimm. Þorsteinn segir slíka þjónustu geta skipt sköpum.
„Þetta hefur sýnt sig og er afskaplega gott fyrir ferðamanninn að vita að þarna sé, ekki fullbúinn sjúkrabíll en fullkomið bráðaviðbragð með öllum helstu tækjum og tólum og vel þjálfuðum starfsmanni.“
Kvíða framhaldinu ef ekkert breytist
Björgunarsveitin á Flúðum er með viðbragðssveitir, sem kallaðar eru út til aðstoðar öðrum viðbragðsaðilum ef slys gerast í uppsveitum. Formaður sveitarinnar tekur undir ákallið.
„Meira viðbragð er alltaf betra og eins og er á Þingvöllum þá er þarna sér viðbragðsbíll sem þjóðgarðurinn borgar. Það væri hugmynd þarna uppfrá líka,“ segir Einar Ágúst Hjörleifsson, formaður björgunarsveitarinnar Eyvindar.

Þetta kemur ekki bara ferðamönnunum við, þetta hefur líka áhrif á ferðamenn.
„Já og þegar við erum í útkalli er það víða þannig að við erum bara með einn sjúkrabíl, til dæmis í Vík og Klaustri, og höfum ekki annan mannskap en þann,“ segir Þorsteinn.
Eruð þið kvíðnir fyrir framhaldinu ef ekkert breytist?
„Já, það verður alla vega mikil áskorun að takast á við og við þurfum að bregðast við áður en í óefni er komið.“