Handbolti

Haukarnir verða passa sig þegar þeir skora fimmtánda markið sitt í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá fyrsta leik liðanna. Blær Hinriksson og Árni Bragi Eyjólfsson í baráttunni við Haukamanninn Adam Hauk Baumruk.
Frá fyrsta leik liðanna. Blær Hinriksson og Árni Bragi Eyjólfsson í baráttunni við Haukamanninn Adam Hauk Baumruk. Vísir/Hulda Margrét

Haukar taka á móti Aftureldingu í kvöld í undanúrslitaeinvígi Olís deildar karla í handbolta. Afturelding er 1-0 yfir í einvíginu og Haukarnir þurfa nauðsynlega á sigri að halda ætli þeir ekki að eiga á hættu að vera sendir í sumarfrí í leik þrjú.

Annar leikur Hauka og Aftureldingar hefst klukkan 19.30 á Ásvöllum í kvöld en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5 og hefst upphitun klukkan 19.00.

Haukar litu vel út fram eftir leik eitt en líkt og í bikarúrslitaleiknum á móti Aftureldingu í Laugardalshöllinni á dögunum þá snerist leikurinn við í seinni hálfleiknum.

Í báðum leikjum voru Haukar í fínum málum þegar þeir skoruðu sitt fimmtánda mark í leiknum.

Í bikarúrslitaleiknum þá voru Haukar fjórum mörkum yfir þegar þeir skoruðu sitt fimmtánda mark, 15-11.

Mosfellingar skoruðu næstu tvö mörk og komu sér aftur að fullu inn í leikinn. Þeir enduðu síðan á því að breyta stöðunni úr 23-21 í 23-26 og lögðu með því grunninn að sigrinum.

Í fyrsta leik undanúrslitanna í Mosfellsbænum þá voru Haukarnir 15-12 yfir í leiknum í upphafi seinni hálfleiksins.

Mosfellingar skoruðu næstu tvö mörk, minnkuðu muninn í eitt mark og það var allt annað að sjá liðið. Í stöðunni 14-17 fyrir Hauka þá skoruðu liðsmenn Aftureldingar sjö mörk í röð og voru þá komnir í 21-17.

Það er því keimlík þróun í þessum síðustu innbyrðis leikjum Hauka og Aftureldingar. Haukar byrja betur en svo snýst allt við í seinni hálfleik.

Afturelding náði þannig að skora fimm mörk í röð á úrslitastund í bikarúrslitaleiknum og svo sjö mörk í röð á annarri lykilstund í fyrsta leik undanúrslitaeinvígisins.

Haukarnir verða því að passa sig þegar þeir skora fimmtánda markið sitt í kvöld. Það er eins og það kveiki á Mosfellingum og þegar þeir skipta í túrbógírinn þá eru þeir stórhættulegir.

  • Síðustu tveir innbyrðis leikir Hauka og Aftureldingar:
  • Fyrsti leikur í undanúrslitum
  • Haukar 15-12 yfir
  • Afturelding vinnur síðustu 26 mínúturnar 16-9
  • Afturelding vinnur leikinn 28-24
  • Bikarúrslitaleikurinn
  • Haukar 15-11 yfir
  • Afturelding vinnur síðustu 32 mínúturnar 17-12
  • Afturelding vinnur leikinn 28-27



Fleiri fréttir

Sjá meira


×