Erlent

Komst lífs af með því að lifa á víni í fimm daga í ó­byggðum Ástralíu

Atli Ísleifsson skrifar
Konan hafði fest bíl sinn í leðju á fáförnum vegi eftir að hafa tekið ranga beygju á sunnudeginum fyrir viku. Hún fannst á föstudaginn.
Konan hafði fest bíl sinn í leðju á fáförnum vegi eftir að hafa tekið ranga beygju á sunnudeginum fyrir viku. Hún fannst á föstudaginn. Lögregla í Viktoríu

Lögregla í Ástralíu fann á dögunum 48 ára konu í óbyggðum Viktoríu þar sem hennar hafði verið saknað í fimm daga. Konan komst lífs af með því að neyta einungis sleikipinna og víns sem hún var með í bílnum, en hún hafði fest bíl sinn í leðju á fáförnum vegi.

BBC segir frá því að konan, Lillian Ip, hafi lagt af stað í bílferð á sunnudaginn fyrir viku en tekið ranga beygju og að lokum fest bíl sinn.

Fram kemur að Ip drekki ekki að jafnaði en neytt innihald vínflösku þá daga sem hennar var saknað í óbyggðunum. Hún var með sleikipinnana og flöskuna í bílnum og hafði ætlað að gefa móður sinni flöskuna að gjöf .

Lögregla um borð í þyrlu fann svo konuna á föstudaginn þar sem hún flaug yfir svæðið við leit.

Ip segir í samtali við 9News Australia að það fyrsta sem hafi komið upp í huga hennar þegar hún sá lögregluna hafi verið „vatn og sígarettur“. „Ég þakka guði að lögreglukonan hafi verið með sígarettu.“

Ip segir að hún hafi talið að hún myndi deyja þarna í óbyggðunum. „Það slokknaði á líkama mínum á föstudaginn.“ Þá segir hún að hafi verið kominn á þann stað að skrifa kveðjubréf til fjölskyldu sinnar og sagt að hún elskaði hana.

Ip fannst um sextíu kílómetrum frá næsta þorpi, en vegna vanheilsu hafi hún ekki verið fær um að ganga þessa löngu leið til byggða. Hún hafi því ákveðið að halda kyrru fyrir í bílnum.

Fram kemur að konan hafi verið flutt á sjúkrahús vegna vökvaskorts, en hún hefur nú aftur snúið til síns heima í Cheltenham, í úthverfi Melbourne í Viktoríu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×