Erlent

Byssu­maðurinn sagður hafa að­hyllst hvíta öfga­hyggju

Kjartan Kjartansson skrifar
Viðskiptavinir verslunarmiðstöðvarinnar ganga með hendur á lofti fram hjá lögreglubíl eftir að vopnaður maður skaut átta manns til bana í Allen í Texas á laugardag.
Viðskiptavinir verslunarmiðstöðvarinnar ganga með hendur á lofti fram hjá lögreglubíl eftir að vopnaður maður skaut átta manns til bana í Allen í Texas á laugardag. AP/LM Otero

Samfélagsmiðlanotkun karlmanns sem skaut átta manns til bana í verslunarmiðstöð í bænum Allen í Texas um helgina bendir til þess að hann hafi aðhyllst hvíta þjóðernishyggju og nýnasisma. Hann er meðal annars sagður hafa kennt sig við hægrisinnaðar dauðasveitir á herklæðum sínum.

Lögreglumenn skutu Mauricio Garcia, 33 ára gamlan karlmann, til bana en ekki áður en hann hafði náð slátra átta saklausum borgurum með AR-15 árásarriffli á laugardag. Yngsta fórnarlambið var fimm ára en það elsta 61 árs. Talið er að fleiri en eitt barn sé á meðal þeirra látnu. Sjö aðrir eru sárir. 

Yfirvöld hafa ekki greint frá því hvað morðingjanum gekk til. AP-fréttastofan segir að þau kanni þó hvort hann hafi sýnt málstað hvítra þjóðernissinna áhuga. Þau hafi AP þegar rætt við ættingja og kunningja Garcia og spurt þá út í hugmyndafræði hans.

Bandarískir fjölmiðlar hafa hins vegar grafið upp samfélagsmiðlareikninga sem passa við Garcia. NBC-sjónvarpsstöðin segir að rannsóknarlögreglumenn hafi fundið færslur þar sem Garcia hataðist við kynþátta- og þjóðernisminnihluta. 

New York Times segir að Garcia hafi lofað Adolf Hitler og lýst stuðningi við nýnasisma á rússneska samfélagsmiðlinum OK.RU þar sem nær engin ritstýring er. Þar hafi Garcia spúið hatri um svarta og konur.

Garcia var klæddur herklæðum í árásinni. Á þeim var leppur með skammstöfuninni „RWDS“ sem stendur fyrir „hægrisinnuð dauðasveit“ (e. Right Wing Death Squad) á ensku. Hugtakið er sagt vinsælt á meðal hægriöfgamanna og hvítra þjóðernissinna. Það vísar til dauðasveita herforingjastjórnar Augusto Pinochet í Síle á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Pinochet lét myrða þúsundir vinstrimanna, meðal annars með því að varpa þeim út úr flugvélum.

Þá segir AP að Garcia hafi verið vikið úr hernum vegna geðrænna vandamála aðeins þremur mánuðum eftir að hann skráði sig árið 2008. Hann hafði þá enn ekki lokið grunnþjálfun.

Eitt fjöldamorð með skotvopni á viku

Mannskæðar skotárásir eru daglegt blóð í Bandaríkjunum. Tíðni fjöldamorða af þessu tagi það sem af er ári keyrir þó um þverbak. Samkvæmt gagnagrunni AP-fréttastofunnar hefur að meðaltali eitt fjöldamorð með skotvopnum verið framið á viku.

Þegar Garcia hóf morðæði sitt var innan við vika frá því að vopnaður maður skaut fimm nágranna sína til bana eftir að þeir báðu hann að hætta að hleypa af byssu sinni á meðan ungbarn svaf í Cleveland í Texas. Á meðal þeirra látnu var ungur drengur og móðir hans á þrítugsaldri.

Viðbrögðin við þessari nýjustu skotárás hafa verið stöðluð til þessa. Demókratar krefjast þess að skotvopnalöggjöfin verði hert. Repúblikanar hafna því sem fyrr. Ólíklegt er að áeggjan Joes Biden forseta til repúblikana um að þeir yppti ekki öxlum yfir enn einu fjöldamorðinu breyti nokkru þar um.

Ungir mótmælendur með skilti fyrir utan bænastund vegna fjöldamorðsins. Annað þeirra vísar til orða fyrrverandi lögreglumanns sem kom að illa útleiknu líki eins fórnarlamba árásarinnar.AP/LM Otero

„Hún var ekki með neitt andlit“

Nokkur umræða hefur geisað um myndbirtingar eftir skotárásir af þessu tagi. Myndbönd og myndir sem virtust vera frá vettvangi í Allen og sýndu illa útleikin lík fórnarlamba eftir kúlur árásarriffilsins fóru víða um samfélagsmiðla í kjölfar árásarinnar. Þau sjónarmið hafa heyrst að fjölmiðlar þurfi að birta slíkar myndir, þrátt fyrir óhugnaðinn, til þess að almenningur átti sig á afleiðingunum.

Steven Spainhouser, fyrrverandi lögreglumaður á sjötugsaldri, sem þusti að verslunarmiðstöðinni til þess að finna son sinn sem vinnur þar kom fyrstu að sumum fórnarlambanna. 

Hann sagði New York Times að hann hefði meðal annars séð unga stúlku sem lá úti í runna. Hún hafi verið í bænarstellingu með höfuðið á milli hnjánna. Hún var ekki með neinn púls. Hann sneri höfðinu á henni til að gá hvort að hún væri með lífsmarki.

„Hún var ekki með neitt andlit,“ sagði Spainhouser.


Tengdar fréttir

Missti konu sína og son í skotárás óðs nágranna

Wilson Garcia og fjölskylda hans hringdu fimm sinnum eftir aðstoð lögreglu þegar nágranni þeirra í Cleveland í Texas í Bandaríkjunum, neitaði að hætta að skjóta úr byssu í garði sínum. Þeim var tjáð að hjálp væri á leiðinni en stuttu síðar skaut umræddur nágranni fimm manns til bana, þar af konu og son Garcia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×