Lífið

„Hann er alltaf bara litli strákurinn minn“

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Hekla og Aron eiga fallegt mæðginasamband.
Hekla og Aron eiga fallegt mæðginasamband.

„Ég er eiginlega ekkert að fatta það að hann sé vinsæll. Kannski líka að það er svo einfalt að vera þekktur á Íslandi. Hann gerir allt sem hann vill og það er ekkert vesen eða áreiti,“ segir Hekla Aðalsteinsdóttir flugfreyja og mamma tónlistarmannsins Arons Can Gultekin.

Aron varð landsþekktur á einni nóttu þegar hann skaust upp á stjörnuhimininn aðeins sextán ára gamall árið 2016 með laginu, Enginn mórall.

Móðurhjartað hefur ef til vill slegið örlítið hraðar vegna aukinnar athygli og hraðri uppleið hjá ósjálfráða poppstjörnunni sem hún lýsir sem auðmjúkum dreng sem hefur verið laus við alla stjörnustæla.

Hekla lýsir sambandi sínu og Arons sem nánu og traustu.Aðsend

„Málið er að þetta var eins og lítill snjóbolti sem hefur rúllað áfram. Hann var búinn að gera fullt af tónlist aðeins þrettán eða fjórtán ára sem hann leyfði mér alltaf að heyra og sagðist alltaf ætla að gera eitthvað við. Svo kom bara næsta og næsta lag og allt í einu er hann orðinn eitthvað númer,“ segir Hekla og bætir við:

„Maður áttar sig ekkert á þessu, hann er alltaf bara litli strákurinn minn.“

Aron tók meðal annars þátt í söngkeppni Samfés árið 2014.

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart?

„Það sem hefur komið mér kannski mest á óvart er hvað fólk er hissa að ég sé mamma hans,“ segir Hekla og hlær.

Hekla lýsir fyrstu árunum á ferlinum sem mikilli sprengingu sem tók tíma að venjast en hann hafi tæklað hlutina vel fyrir ungan aldur. 

„Hann hefur farið alveg upp og niður á yngri árum eins og allir en var þó rólegur og á jörðinni allan tímann,“ segir Hekla.

Alla tíð hefur verið mikil tónlist í lífi Arons.Aðsend

Fyrstu árin fór Hekla með honum á fjölda tónleika þar sem hann þurfti að fá leyfi til að vera inni á staðnum þar sem hann hafði ekki náð tilteknum aldri.

„Ég fór með honum á fjölda tónleika en líka umboðsmaðurinn hans Óli Thors sem hefur haldið vel utan um hann. Síðan þegar hann og Erna kærastan hans voru orðin aðeins meira alvöru par fór hún að fara með honum á tónleikana og ég klippti á naflastrenginn,“ upplýsir Hekla glöð um sambandið sem hún á við fólkið í kringum hann.

Aron og Hekla á góðri stundu í New York.Aðsend

Can er borið fram, djan og þýðir líf á tyrknesku

Aron er hálf tyrkneskur þar sem pabbi hans er þaðan en býr þó hér á landi og hefur meðal annars rekið nokkra veitingastaði í miðbæ Reykjavíkur. 

„Can er tyrkneskt nafn og er borið fram djan sem þýðir líf,“ segir Hekla sem bjó í Tyrklandi í tæp átta ár. 

Dóri DNA ræddi við Aron um það hvernig bera eigi fram nafnið Aron Can. Innslag úr þáttunum Rapp í Reykjavík á Stöð 2.

„Hann byrjar um fimm eða sex ára á fullu í breikdansi hjá Natöshu í kramhúsinu og er að gera það gott í breikinu. Hann var með systur sinni og frænda þeirra oft úti á götu að dansa á mottu,“ rifjar Hekla upp. Hún segir tónlistina hafa komið snemma fram í honum. 

„Þetta er pínu í blóðinu.“

Mæðginarapp um daglega hluti

Að sögn Heklu hefur alltaf verið mikil tónlist á heimilinu. Hún segir fjölskylduna hafa grínast með að rappa setningar um einfaldar athafnir daglegs líf sín á milli þegar Aron var yngri.

„Við röppuðum til dæmis „eigum við að fara í sund“ og svarið var rappað til baka „það var rosa skemmtilegt“,“ segir Hekla og hlær.

Hekla lýsir sambandi þeirra mæðgina sem afar nánu og traustu og segir Aron mikinn fjölskyldumann.

„Við erum ofboðslega góðir vinir og hann er svolítill mömmustrákur, og hefur alltaf verið. Hann leitar til mín með allt, er duglegur að leyfa mér að hlusta á tónlistina sína áður en hún kemur út, en á það líka til að vara mig áður út af textunum,“ segir Hekla og heldur áfram:

„Hann er mjög líkur mér að mörgu leyti og við eigum svipuð áhugamál og elskum góðan mat, tónlist og hreyfingu. Eina er að hann hefur ekki gott tímaskyn, við skulum orða það þannig,“ segir Hekla og hlær.

Aron dreymdi á yngri árum að verða flugmaðurAðsend

Aron og kærastan hans Erna Björnsdóttir eignuðust frumburðinn í síðasta mánuði og er drengurinn annað barnabarn Heklu. 

„Það er alveg geggjað,“ segir Hekla sem er orðin tvöföld amma og afar stolt. 

„Það er eitthvað alveg annað en að verða mamma.“

Hekla og Aron með son Arons.Aðsend

Uppáhalds lög mömmu Arons Can:

„Hérna eru mín uppáhalds og svo elska ég auðvitað nánast öll lögin, bara mis mikið.“

1. Var þetta þá rétt

2. Sleikir á þér varirnar

3. Fremst þegar ég spila


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×