Erlent

Lygni þingmaðurinn ákærður

Kjartan Kjartansson skrifar
George Santos við þingsetningu í byrjun árs. Hann afsalaði sér fljótt nefndarstörfum sem honum höfðu verið falin.
George Santos við þingsetningu í byrjun árs. Hann afsalaði sér fljótt nefndarstörfum sem honum höfðu verið falin. EPA/Jim Lo Scalzo

Bandaríska dómsmálaráðuneytið er sagt hafa ákært George Santos, fulltrúadeildarþingmann Repúblikanaflokksins frá New York, fyrir glæp. Santos varð uppvís að umfangsmiklum lygum um ævi sína og störf eftir að hann náði kjöri á þing.

CNN-fréttastöðin segist hafa fyrir því heimildir að Santos gæti verið dreginn fyrir alríkisdómara í New York strax á morgun. Þar verði trúnaði um ákæruefnið aflétt. 

Ekki er ljóst fyrir hvað Santos er ákærður en alríkislögreglan og alríkissaksóknarar hafa rannsakað meintar lygar um fjárreiður framboðs þingmannsins og fleira. Lögmaður Santos og fulltrúar saksóknara, ráðuneytis og FBI vildu ekki tjá sig um málið.

Kevin McCarthy, forseti fulltrúadeildarinnar og leiðtogi repúblikana í þingdeildinni, sagðist ætla að kynna sér ákæruefnið áður en hann tæki ákvörðun um hvort að Santos yrði vísað af þingi.

Santos var einn fjögurra frambjóðenda Repúblikanaflokksins sem náðu að fella sitjandi þingmenn demókrata í þingkosningunum síðasta haust. Kosningabarátta hans rataði ekki landsfréttirnar á meðan á henni stóð. Eftir kosningarnar afhjúpaði New York Times að Santos hefði sagt rangt frá starfsferli sínum, menntun og ýmsu fleira.

Síðan þá hefur Santos verið sakaður um að brjóta lög um fjármál stjórnmálaframboða, stela fé sem átti að renna í góðgerðastarf fyrir hunda uppgjafarhermanna og greiðslukortasvindl.


Tengdar fréttir

George Santos: „Ég hef verið hræðilegur lygari“

Þingmaður Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum viðurkenndi í gær að hafa logið til um margt sem tengist fortíð hans. Aðspurður hvers vegna hann hafi logið sagðist hann hafa gert það áður og komist upp með það þá. 

Þing­maðurinn ljúgandi hættir við nefnda­setu

Bandaríski þingmaðurinn George Santos mun ekki taka sæti í tveimur þingnefndum sem hann hafði verið skipaður í. Hann segist vilja bíða þar til búið væri að hreinsa hann af ásökunum um lygar í ferilskrá sinni og hefur beðið samflokksmenn sína afsökunar á „fjölmiðlafárinu“ sem myndast hefur í kringum hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×