Skoðun

Ibiza norðursins

Stefanía K. Ásbjörnsdóttir skrifar

Mörg kannast við að hafa slett úr klaufunum á suðrænum eyjum einhvern tíma á lífsleiðinni. Færri vilja þó e.t.v. gangast við því. Tónlistin taktföst, bassinn í botni, stemmingin í hámarki. Gamanið tekur þó alltaf enda, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Hversu hátt fallið er að teiti loknu veltur á því hversu hratt við gengum um gleðinnar dyr, hvort við rötuðum hinn gullna meðalveg eða létum kappið bera fegurðina ofurliði, en meðalvegurinn er bæði þröngur og vandrataður – fallið er því oft ívið hærra en upphaflega stóð til.

Íslenska þjóðin þekkir þessa rússíbanareið gleðinnar inn og út, þó ekki vegna þess að hún sé sérstakur heimsmetshafi í framúrskarandi skemmtanahaldi, heldur vegna þess að hagstjórn hér á landi hefur lengi vel haft sömu eða svipuð einkenni. Nú þegar stuðið (eða þenslan eins og það er venjulega kallað) í hagkerfinu hefur náð ákveðnum hápunkti, enn á ný, virðist engin breyting ætla að verða þar á. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru, þegar upp er staðið, mennsk eins og við hin og því varla að undra að froðudiskó í öllu stuðinu hafi freistað þeirra. Fjármálaáætlun fyrir árin 2024 til 2028 ber þess skýr merki.

Ekki er allt sem sýnist

Undanfarin ár hafa verið heldur stormasöm þegar ríkisfjármálin eru annars vegar en nú er útlit fyrir að jafnvægi komist aftur á eftir mikið umrótatímabil sökum heimsfaraldurs. Niðurtúrinn eftir útgjaldaaukningu kóvid-áranna hefur verið bæði langur og erfiður þó nú sé tekið að birta til. Til hins opinbera renna nú töluverðir fjármunir í formi aukinna skatttekna, tekna sem reynast ítrekað langt umfram áætlanir. Samhliða berja freistingar að dyrum ríkissjóðs.

Í stað þess að sýna aðhald og styðja við Seðlabankann í baráttunni við verðbólguna hefur hið opinbera fallið í freistni. Óvæntum tekjum er enn á ný varið í ný og aukin útgjöld. Rekstur hins opinbera hefur þrátt fyrir það gengið betur en óttast var við upphaf heimsfaraldurs og halli á rekstri umtalsvert minni en gert var ráð fyrir. Með öðrum orðum, eyðslufylliríið hefur haft í för með sér þynnku þó hún hafi þegar upp var staðið orðið nokkuð skárri en við bjuggumst við. Það er þó ekki vegna þess að hið opinbera hafi sýnt slíka fyrirhyggju, þvert á móti. Þegar þensla er mikil og verðbólga í hæstu hæðum eiga tekjur það til að aukast hraðar en útgjöld sem réttir reksturinn af, en það er yfirleitt einungis tímabundið ástand, sérílagi þegar tekjunum er jafnharðan varið til nýrra varanlegra útgjalda. Þá má með sanni segja að ekki er allt sem sýnist.

Enginn er óþrjótandi tekjulind

Ef allt gengur samkvæmt plani næst brátt jafnvægi í grunnrekstri ríkisins, þökk sé öllu óvænta tekjustreyminu. Betur má þó ef duga skal, tekjum er nú varið til hinna ýmsu útgjalda þannig að ekki stendur nóg eftir til að greiða vexti af skuldum. Ríkið hefur þurft að slá lán til þess – sannkallaður yfirdráttur á kostnað framtíðarkynslóða – ríkið hefur kosið að eyða um efni fram.

Vandséð er að tekjur séu á einhvern hátt ónógar. Síbylja um vannýtta tekjustofna og tapaðar tekjur hins opinbera breyta litlu þar um, tölurnar tala sínu máli. Öllu frekar má ætla að skortur á vilja eða getu til að taka raunverulegar ákvarðanir um aðhald og hagræðingu valdi því að ríkisstjórnin kýs nú að auka álögur á einstaklinga og fyrirtæki með það að markmiði að rétta reksturinn af. Þessi nálgun er ekki forsvaranleg fyrr en tækifæri til að draga úr útgjöldum hafa verið tæmd. Í stað þess að axla ábyrgð á eigin rekstri ganga áætlanir stjórnvalda út á að seilast lengra ofan í vasa þeirra sem verðmætin skapa.

Hið opinbera á allt sitt undir velgengni einstaklinga og atvinnulífs. Það ætti því að vera hinu opinbera kappsmál að byggja undir og efla íslenskan efnahag. Ólíklegt er að auknar opinberar álögur skili yfir höfuð auknum tekjum í ríkiskassann þegar upp er staðið, enda koma þær niður á rekstrarumhverfi fyrirtækja og draga úr framtakssemi einstaklinga, en þangað eiga jú tekjur hins opinbera rætur sínar að rekja.

Höfundur er hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×