Samningurinn um hefðbundinn herafla í Evrópu (CFE) var undirritaður árið 1990 milli aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO) og Varsjárbandalagsins sáluga. Ísland er aðili samningnum.
Samkvæmt Stjórnarráðinu er CFE talinn mikilvægasti afvopnunarsamningurinn á sviði hefðbundinna vopna. Hann kveður meðal annars á um hámarksfjölda hermanna og hergagna svo sem skriðdreka, orrustuþota og stórskotaliðs í Evrópu. Einnig upplýsingaskipti, tilkynningar, skoðun og eftirlit. Samráðsnefnd fundar reglulega um framkvæmd CFE í Vínarborg. Aðildarríkin voru upphaflega 22 en eru í dag 30 talsins.
Hámarkið sem hver blokk mátti hafa voru 20 þúsund skriðdrekar, 20 þúsund stórskotaliðsbyssur, 30 þúsund brynvarðir bílar, tæplega 7 þúsund herflugvélar og 2 þúsund þyrlur.
Samkvæmt rússneska ríkismiðlinum Rossiyskaya Gazeta er óljóst hvenær málið verður tekið fyrir í rússneska þinginu, Dúmunni, en samkvæmt Leoníd Slútskí, formanni alþjóðanefndar, gæti það gerst 16. maí.
Breytingar ekki fullgiltar
Upphaflega voru stjórnvöld í Moskvu mjög hrifin af samningnum. Hann tryggði jafnvægi milli hersveita NATO og ríkja Varsjárbandalagsins í álfunni. En eftir því sem fleiri austur Evrópu ríki gengu í NATO töldu Kremlverjar að laga þyrfti samninginn. Það er setja kvóta á hvert land.
Þessi breyting var gerð árið 1999 á fundi í Istanbúl en tók í raun aldrei gildi. Aðeins fjögur ríki fullgiltu breytingarnar, Rússland, Úkraína, Kasakstan og Hvíta Rússland. En ágreiningur um dvöl herliðs Rússa í Abkasíuhéraði í Georgíu og Transnistríuhéraði í Moldóvu olli því að önnur ríki fullgiltu ekki breytingarnar. Þá hafa sum ný ríki ekki einu sinni skrifað undir upprunalega CFE samninginn, svo sem Eystrasaltsríkin, Slóvenía og Króatía.

Í desember tilkynntu Rússar því um frestun á framkvæmd samningsins en ríki NATO halda áfram að framkvæma ákvæði hans. Samkvæmt Stjórnarráðinu styður Ísland áframhaldandi viðræður um að ná samkomulagi um framkvæmd CFE. Rússar hafa hins vegar neitað að leyfa eftirlit á grundvelli CFE.
Utanríkisráðuneytið tjáir sig ekki
Konstantín Kosasjov, talsmaður efri deildar rússneska þingsins, sagði við fréttastofuna Tass í gær að Rússland væri að fara út úr CFE. „Með því að hafna CFE er Rússland að fjarlægja plagg sem er ekki í takt við raunveruleikann en er ekki að ljúka samtalinu um takmarkanir á hefðbundnum vopnum,“ sagði hann.
Samkvæmt Sveini H. Guðmarssyni, fjölmiðlafulltrúa utanríkisráðuneytisins, telur ráðuneytið ekki tímabært að tjá sig um brotthvarf Rússa frá samningnum fyrr en formleg staðfesting liggur fyrir.