Atkvæðagreiðslu um hvort Efling ætti að segja sig úr Starfsgreinasambandinu lauk í dag. Tæplega tuttugu og eitt þúsund félagsmenn voru á kjörskrá og tóku rétt rúmlega fimm prósent þeirra þátt í atkvæðagreiðslunni.

Mikill meirihluti samþykkti úrsögnina eða 71,5 prósent, 27,8 prósent vildu vera áfram í sambandinu en 2,4 prósent tóku ekki afstöðu. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar er mjög sátt við niðurstöðuna.

„Og ég fagna því að svona afgerandi meirihluti sé sammála afstöðu forystu félagsins,“ segir formaðurinn.
Efling var lang fjölmennasta félagið af 19 aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins með 28 þúsund félagsmenn af 72 þúsund. Efling fær nú beina aðild að Alþýðusambandinu en eins og er á félagið ekki fulltrúa í miðstjórn þar sem kosið var í hana á nýafstöðnu þingi Alþýðusambandsins.
Finnbjörn A. Hermannsson nýkjörinn forseti ASÍ reiknar hins vegar með að Efling fái áheyrnarfulltrúa í miðstjórn. Þá hafi staða Eflingar gagnvart viðræðum við stjórnvöld verið rædd á ASÍ þinginu.

„Það var ákveðið þar að þau kæmu þá inn í viðræður við stjórnvöld. Ég geri ráð fyrir að það verði engin breyting þar á. Þau koma bara beint inn í samninganefndina sem verður skipuð,“ segir Finnbjörn. Efling muni síðan væntanlega fá kjörna fulltrúa í miðstjórn á næsta þingi ASÍ.
Sólveig Anna útilokar ekki samflot með öðrum stéttarfélögum í viðræðum við Samtök atvinnulífsins.
„Hvað verður svo um kjaraviðræðurnar, það er kannski ekki tímabært fyrir mig að svara á þessum tímapunkti. En Efling hefur ávallt getað myndað bandalög með þeim sem við erum sammála um meginlínur mála,“ segir Sólveig Anna.
Þótt öllum væri ljóst að Efling og SGS hafi ekki átt samleið við gerð síðustu kjarasamninga hafi það ekki verið megin ástæðan fyrir úrsögninni. Það væri ekki góð nýting á fjármunum félagsfólks að borga stórar fjárhæðir til landssambands þaðan sem engin þjónusta væri sótt.
„Framseljum ekki samningsumboð okkar til. Þannig að það voru helstu ástæðurnar fyrir því að við ákváðum að fara þessa leið.“
Heldur þú að Efling verði sterkari á eftir í samskiptum sínum við Samtök atvinnulífsins og sveitarfélögin?
„Ég tel algerlega ljóst að eftir þessa niðurstöðu verði Efling mun sterkari. Það er hundrað prósent,“ segir Sólveig Anna.
Forseti ASÍ segir Eflingu koma að mótun krafna eins og önnur félög og sambönd í viðræðum við stjórnvöld.
„Efling hefur ekki verið mjög virk innan Starfsgreinasambandsins að undanförnu. Best hefði verið að þau hefðu unnið saman. En þar sem þessar deilur hafa verið uppi innan Starfsgreinasambandsins og Eflingar er þetta kannski skýrara, að hafa þetta með þessum hætti,“ segir Finnbjörn A. Hermannsson.