Fótbolti

Knatt­spyrnu­sam­bandið reddar rútum á Wembl­ey vegna verk­falls lestar­starfs­fólks

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Úrslitaleikur FA-bikarsins fer fram á Wembley.
Úrslitaleikur FA-bikarsins fer fram á Wembley. Matt Cardy/Getty Images

Enska knattspyrnusambandið, FA, mun útvega 120 rútur sem munu ganga frá Manchester til London í næsta mánuði til að koma stuðningsmönnum Manchester-liðanna á úrslitaleik FA-bikarsins sem fram fer á Wembley þann 3. júní.

Það er fyrirhugað verkfall starfsfólks breska lestarkerfisins sem þvingar knattspyrnusambandið í að útvega rúturnar, en eins og staðan er í dag munu engar lestar ganga á milli Manchester og London þann dag sem úrslitaleikur elstu og virtustu bikarkeppni heims fer fram.

Manchester United og Manchester City mætast í úrslitum og því munu stuðningsmenn liðanna þurfa að ferðast nokkuð langa vegalengd til að komast á leikinn.

Hvort félag fyrir sig hefur því fengið úthlutað 60 rútum sem munu sjá til þess að sel flestir komist leiðar sinnar þegar úrslitaleikurinn fer fram.

Þá hefur knattspyrnusambandið einnig fengið aðgang að Fryent Country Park, sem er 103 hektara almenningsgarður, og geta þeir sem koma akandi fengið að leggja bílum sínum á meðan leik stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×