Erlent

Sakar Giuli­ani um að þvinga sig til kyn­lífs

Kjartan Kjartansson skrifar
Rudy Giuliani var persónulegur lögmaður Donalds Trump og áður borgarstjóri New York.
Rudy Giuliani var persónulegur lögmaður Donalds Trump og áður borgarstjóri New York. AP/Mary Altaffer

Kona sem fullyrðir að hún hafi unnið fyrir Rudy Giuliani, persónulegan lögmann Donalds Trump, sakar hann um að hafa þvingað sig til kynlífs og að skulda henni milljónir í launagreiðslur. Hún segir eiga upptökur af lögmanninum. Giuliani hafnar ásökununum alfarið.

Í stefnu Noelle Dunphy gegn Giuliani heldur hún því fram að hún hafi verið almannatengslaráðgafi og markaðsstjóri fyrir hann á árunum 2019 til 2021. Hann hafi lofað að greiða henni milljón dollara á ári en beðið um að bíða með greiðslurnar þar til skilnaður hans við þáverandi eiginkonu hans væri frágenginn. Giuliani hafi aðeins greitt henni brot af upphæðinni.

Hún lýsir Giuliani sem drykkjurafti og kvennabósa sem bryður stinningarlyf í stórum stíl. Hann hafi gert þá kröfu að starfi hennar fylgdi að fullnægja kynferðislegum löngunum hans.

Dunphy heldur því jafnframt fram að hún eigi hljóðupptökur af Giuliani, sem er 78 ára gamall. Á þeim heyrist hann meðal annars hafa uppi kynferðisleg umæli, krefjast kynlífs og níða konur, aðra kynþætti og gyðinga. AP-fréttastofan segir að lögmenn Dunphy hafi ekki viljað deila upptökunum með fréttamönnum.

Þvingaði hana til kynlífs með Trump í símanum

Giuliani byrjaði nær samstundis að ganga á Dunphy um kynlíf samkvæmt stefnunni. Hann hafi meðal annars kysst hana í aftursæti jeppa sem þau voru farþegar í á fyrsta vinnudegi hennar. Hann hafi krafist þess að hún fullnægði honum kynferðislega. Hann hafi látið hana klæðast ögrandi klæðnaði og afklæðast á meðan hann var á fjarfundum.

Athæfi Giuliani er lýst ítarlega í stefnunni. Hann er sagður hafa þvingað Dunphy til þess að veita sér munnmök ítrekað á meðan hún vann fyrir hann. Hann hafi oft krafist þess á meðan hann var í símanum á hátalara við þekkta vini og viðskiptavini, þar á meðal Donald Trump, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Dunphy segir að Giuliani hafi sagt sér að þetta léti honum „líða eins og Bill Clinton“.

Lögmaður Giuliani hefur áður hafnað þvi alfarið að Dunphy hafi nokkru sinni unnið fyrir hann. Hann útilokar ekki gagnmálsókn á hendur henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×