Rafmyntamarkaðurinn hefur að miklu leyti verið eins og villta vestrið þar sem og fjárfestar eru berskjaldaðir. Eftir fall FTX, þriðju stærstu rafmyntakauphallar heims, í haust urðu raddir háværari um að reglum yrði komið yfir rafmyntir.
Reglur sem Evrópuþingið samþykkti í apríl voru endanlega samþykktar á fundi fjármálaráðherra Evrópusambandsins í gær, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Elizabeth Svantesson, fjármálaráðherra Svíþjóðar sem fer með forsæti ráðherraráðs Evrópusambandsins, segir að nýlegir atburðir hafi knúið á um að reglur yrðu settar til þess að vernda rafmyntafjárfesta og koma í veg fyrir að rafmyntir verði notaðar til peningaþvottar og fjármögnunar hryðjuverka.
Samkvæmt reglunum þurfa fyrirtæki sem gefa út rafmyntir, versla með þær eða geyma að fá til þess leyfi frá yfirvöldum.
Fram að þessu hafa bresk stjórnvöld farið hægt í sakirnar. Þau ætla sér að byrja að setja reglur um svonefndar fastgengisrafmyntir (e. stablecoins) og síðar um aðrar myntir. Ekki liggur fyrir hvenær slíkar reglur verða settar þar.
Bandaríkin eru enn skemur á veg komin. Þar eru alríkis- og ríkisyfirvöld enn að reyna að átta sig á hvernig þau geta haft eftirlit með rafmyntarviðskiptum, að sögn Hesters Peirce frá CFTC, alríkisstofnun sem hefur eftirlit með afleiðuviðskiptum í Bandaríkjunum.