Lífið

Skilnaðurinn erfiður en sam­bandið gott í dag

Máni Snær Þorláksson skrifar
Arnold Schwarzenegger og Maria Shriver sjást hér saman árið 2017. Með þeim má sjá þrjú af fjórum börnum sem þau eiga saman, Christina, Patrick og Katherine.
Arnold Schwarzenegger og Maria Shriver sjást hér saman árið 2017. Með þeim má sjá þrjú af fjórum börnum sem þau eiga saman, Christina, Patrick og Katherine. Getty/Phillip Faraone

Leikarinn, líkamsræktarfrömuðurinn og fyrrverandi ríkisstjórinn Arnold Schwarzenegger segir að skilnaður sinn við Mariu Shriver hafi verið erfiður á sínum tíma. Samband þeirra er þó að hans sögn gott í dag.

Shriver sótti um skilnað árið 2011 þegar í ljós kom að Schwarzenegger hafði haldið framhjá henni með húshjálp þeirra, Mildred Patricia Baena. Schwarzenegger hafði gert Baena ólétta fyrir það og eignaðist hún drenginn Joseph Baena, sem er í dag 25 ára gamall. 

Skilnaðurinn var því stormasamur eða „mjög, mjög erfiður í upphafi“ eins og Schwarzenegger orðar það sjálfur í viðtali við Hollywood Reporter.

Schwarzenegger og Shriver eiga saman fjögur börn, hann segir að þau hafi passað upp á að láta þau ekki finna fyrir skilnaðinum. Þrátt fyrir að það hafi gengið mikið á þeirra á milli hafi þau haldið saman upp á páskana, jólin, afmæli og fleira.

„Við erum mjög góðir vinir og erum mjög náin. Við erum mjög stolt af því hvernig við ólum upp börnin okkar,“ segir Schwarzenegger. „Ef það væru gefin Óskarsverðlaun fyrir hvernig unnið er úr skilnaði ættum við Maria að fá þau fyrir að láta hann hafa sem minnst áhrif á börnin.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×