Innlent

Reisa nýja út­sýnis­palla og lengja göngu­stíg við Dynjanda

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fossinn Dynjandi er í Arnarfirði í Ísafjarðarbæ.
Fossinn Dynjandi er í Arnarfirði í Ísafjarðarbæ. Vísir/Arnar

Í sumar verður göngustígur upp að Dynjanda í Arnarfirði lengdur og þremur nýjum útsýnispöllum komið fyrir. Auglýst er eftir framkvæmdaaðila til að annast framkvæmdirnar. 

Ríkiskaupa auglýsa eftir tilboðum í framkvæmdina fyrir hönd Ríkiseigna. Eru framkvæmdirnar framhald af framkvæmdum sem voru gerðar á árunum 2016 til 2020. Þá var nýr göngustígur lagður, ný bílastæði byggð og aðstöðu fyrir landverði og gesti komið fyrir. 

Nú verður haldið áfram með göngustíginn upp að fossinum sjálfum og þremur nýjum útsýnispöllum úr stáli komið fyrir til að bæta útsýnið fyrir ferðamenn. Verða útsýnispallarnir við Strompgljúfursfoss og Hæstahjallafoss. 

Markmið Ríkiseigna er að framkvæmdum á svæðinu verði lokið í október á þessu ári en er það háð því að haustveðrið á sunnanverðum Vestfjörðum verði milt. 

Hér fyrir neðan má sjá tölvugert myndband frá Landform sem hannaði útsýnispallana, bílastæðin og göngustígana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×