Fótbolti

West Ham og Fiorentina í úrslit Sambandsdeildarinnar eftir dramatík

Smári Jökull Jónsson skrifar
David Moyes fagnaði í leikslok.
David Moyes fagnaði í leikslok. Vísir/Getty

West Ham og Fiorentina mætast í úrslitaleik Sambandsdeildarinnar eftir að hafa unnið sigra í einvígjum sínum í undanúrslitum í kvöld.

West Ham mætti liði AZ Alkmaar í kvöld en West Ham var með 2-1 forystu eftir fyrri leik liðanna á Englandi. Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi og reyndu heimamenn hvað þeir gátu til að ná inn markinu sem þeir þurftu til að jafna metin í einvíginu.

Það gekk hins vegar erfiðlega. Lucas Paqueta skaut í stöninga á marki AZ Alkmaar í fyrri hálfleik og mark heimamanna kom aldrei í síðari hálfleiknum. Þegar heimamenn voru búnir að fjölga vel í sókninni náði Pablo Fornals að tryggja West Ham sigur með marki á fjórðu mínútu uppbótartíma og tryggja West Ham 1-0 sigur.

Lærisveinar David Moyes eru því komnir í úrslitaleik í Evrópukeppni en tímabilið hefur verið erfitt hjá West Ham sem hefur verið í fallbaráttu á Englandi í vetur.

Framlengt í Sviss

Í hinum leik liðanna tók FC Basel á móti Fiorentina. Basel var með 2-1 forystu að loknum fyrri leiknum og Nicolas Gonzalez jafnaði metin í einvígnu þegar hann kom Fiorentina í 1-0 á 35. mínútu.

Snemma í síðari hálfleik jafnaði Zeki Amdouni metin fyrir Basel en Gonzalez var aftur á ferðinni á 72. mínútu þegar hann kom Fiorentina í 2-1 og jafnaði metin í einvíginu á nýjan leik.

Staðan var 2-1 að loknum venjulegum leiktíma og þurfti því að framlengja. Þegar komið var fram í níundu mínútu uppbótartíma í seinni hálfleik framlengingar skoraði síðan Antonin Barak sigurmark Fiorentina. Lokatölur 3-1 og Fiorentina komið í úrslitaleikinn eftir 4-3 sigur í einvíginu.

Leikmenn Fiorentina fagna sigurmarki Antontin Barak.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×