Pétur Rúnar Birgisson er búinn að vera lykilmaður í liði Tindastóls síðan hann var táningur og það sást vel á honum í leikslok hvað hann er búinn að bíða lengi eftir Íslandsmeistaratitlinum.
Pétur Rúnar var gestur á háborði Subway Körfuboltakvölds eftir leik þar sem hann ræddi við Hörð Unnsteinsson og sérfræðinga hans Teit Örlygsson og Hermann Hauksson. En hvernig er tilfinningin?
„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Ég var bara í einhverri geðshræringu þarna eftir leikinn. Ég hélt ég myndi fara að gráta strax eftir leik en gerði það ekki. Svo náði ég augnsambandi við einn vininn minn og ég gjörsamlega brotnaði niður upp á sviðinu. Tilfinningin er eiginlega bara ólýsanleg en ég er enn þá að reyna að meðtaka hana og taka þetta inn,“ sagði Pétur Rúnar Birgisson.
„Ég er ekki einu sinni búinn að ná öllum leikmönnunum okkar. Ég er ekki búinn að ná AD,“ sagði Pétur Rúnar.
„Þetta er löng helgi Pétur,“ skaut þá Teitur Örlygsson inn í en hann varð tíu sinnum Íslandsmeistari á sínum ferli og þekkir þetta vel.
„Ég átti að vera að fara til Orlando klukkan fimm í dag. Ég þurfti að seinka ferðinni,“ sagði Pétur hlæjandi. Hann sem betur fer frestaði ferðinni um nokkra daga og eyðir helginni væntanlega í sigurhátíð á Sauðárkróki.
Pétur Rúnar fór líka yfir styrkleika Tindastólsliðið og hvernig Stólarnir fóru að þessu. Hann fékk hrós frá sérfræðingunum sem bentu líka á það að hann hafi bara hlaupið í hringi þegar leiktíminn rann út og Stólarnir voru orðnir meistarar.
Það má sjá það og allt viðtalið hér fyrir neðan.