Steina Árnadóttir, 62 ára gamall geðhjúkrunarfræðingur, er ákærð fyrir manndráp í opinberu starfi og brot gegn lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Hún neitar sök.
Henni er gefið að sök að svipta konu á sextugsaldri sem var sjúklingur á geðdeild 33A á Landspítalanum við Hringbraut lífi með því að þröngva ofan í hana tveimur flöskum af næringardrykk í ágúst árið 2021. Steina hafi hellt drykknum upp í munn konunnar á meðan henni var haldið að fyrirskipan geðhjúkrunarfræðingsins þrátt fyrir að konan hefði gefið til kynna að hún vildi ekki drykkinn. Drykkurinn hafi hafnað í loftvegi konunnar sem olli því að hún kafnaði.
Aðstandendur konunnar sem lést krefjast fimmtán milljóna króna í bætur.
Landspítalinn viðurkenndi að aðstæður á deildinni hefðu verið ófullnægjandi og að hann hefði brugðist starfsfólki. Ráðist hafi verið í umbætur innan geðþjónustunnar eftir atvikið: heilbrigðismenntuðu starfsfólki á vöktum hafi verið fjölgað, innra skipulagi þjónustunnar breytt og stoðþjónusta við deildir aukin
Að sögn Ríkisútvarpsins er Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans á meðal um þrjátíu vitna sem verða leidd fyrir dóminn.
Dómurinn er fjölskipaður. Auk tveggja dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur verður sérfræðingur í bráðalækningum meðdómandi.
Uppfært klukkan 10:12
Dómari tilkynnti fjölmiðlum í dómsal í morgun að fjölmiðlaumfjöllun væri bönnuð þar til þinghaldi dagsins væri lokið.