Innlent

Kennari mátti ekki löðrunga barn eftir allt saman

Árni Sæberg skrifar
Kennarinn starfaði við Dalvíkurskóla.
Kennarinn starfaði við Dalvíkurskóla. Dalvíkurskóli

Dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra um skaðabætur til handa konu, sem var rekin úr starfi grunnskólakennara fyrir að löðrunga þrettán ára stúlku, hefur verið snúið við í Landsrétti. Landsréttur telur háttsemi konunnar hafa falið í sér gróft brot í starfi sem heimilaði skólanum að segja henni fyrirvaralaust upp störfum.

Mál konunnar vakti mikla athygli þegar henni voru dæmdar alls átta milljónir króna í skaða- og miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar í febrúar í fyrra. Þrátt fyrir að óumdeilt væri að hún hefði löðrungað barnið í íþróttatíma við Dalvíkurskóla studdu bæði Kennarasamband Íslands og Félag grunnskólakennara við bakið á konunni.

Í dómi Landsréttar segir að daginn sem umdeilt atvik átti sér stað hafi kennarinn verið með kennslustund utandyra fyrir drengi sem voru að spila fótbolta. Stúlkunni hafði þá af öðrum kennara verið vísað úr annarri kennslustund, sem fór fram innan dyra fyrir stúlkur, þar sem hún kom ekki með íþróttaföt í skólann. 

Stúlkan hafi fengið þau fyrirmæli frá þeim kennara að ganga ákveðinn hring í bænum í stað þess að vera viðstödd kennslustundina. Frekar en að gera það hafi nemandinn sest á grasflöt við fótboltavöllinn þar sem konan var að sinna kennslu. Að mati hennar hafi þessi viðvera truflað kennslustundina og bað hún nemandann því um að fara. Enduðu þau samskipti með þeim hætti að nemandinn gaf kennaranum kinnhest.

Kennarinn svaraði í sömu mynt og gaf nemandanum kinnhest. Hann kvaðst hafa upplifað ógn af nemandanum og gerði ráð fyrir fleiri höggum enda hafi hún talið nemandann vera í „ham.“

Send í leyfi og loks rekin

Atferli kennarans var kært til lögreglu og var kennarinn sendur í leyfi á meðan rannsókn málsins stóð. Málið var síðar fellt niður. Kennarinn hlaut mikinn stuðning samkennara sinna og tuttugu kennarar og starfsfólk við Dalvíkurskóla skrifuðu undir yfirlýsingu þar sem þau bentu á erfiðleika í skólastarfi og skeytingarleysi stjórnenda skólans.

Kennaranum var veittur andmælaréttur en bæjaryfirvöld töldu brot kennarans gróft. Henni var fyrirvaralaust sagt upp skömmu síðar.

Héraðsdómur taldi að ekki væri hægt að líta einangrað á kinnhestinn. Atvikið hafi ekki verið gróft brot í starfi sem gæti réttlætt fyrirvaralausan brottrekstur. Bæjaryfirvöld hafi því rekið kennarann með ólögmætum hætti.

Lítill kraftur kinnhestsins hafði enga þýðingu

Landsréttur féllst hinsvegar á málatilbúnað bæjaryfirvalda þess efnis að kinnhesturinn hefði falið í sér gróft brot í starfi.

Í dómi Landsréttar kom fram að væri horft til nánar tilgreindra ákvæða laga um grunnskóla og reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, um hvenær heimilt geti verið að beita líkamlegu inngripi gagnvart nemanda yrði, í ljósi óumdeildra atvika málsins, ekki fallist á að efni væru til að hnekkja því mati að háttsemi konunnar í umrætt sinn hefði falið í sér gróft brot á starfsskyldum hennar.

Ekki hefði haft þýðingu í því sambandi þótt konan hefði borið því við að um ósjálfráð viðbrögð hefði verið að ræða af hennar hálfu og að kinnhesturinn hefði ekki verið fastur. Þá yrði ekki fallist á að efni væru til að hnekkja þeirri niðurstöðu sem óhjákvæmilega fælist í framangreindu mati bæjaryfirvalda, að viðvera kennarans áfram í skólanum kynni í ljósi atvika og eðli háttseminnar að vera skaðleg fyrir starfsemi hans.

Þá féllst Landsréttur ekki á það að bæjaryfirvöld hefðu brotið gegn málmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins við töku ákvörðunar um fyrirvaralausa uppsögn konunnar. 

Því var Dalvíkurbyggð sýknuð af öllum kröfum konunnar. Málskostnaður fyrir Landsrétti var felldur niður og gjafsóknarkostnaður konunnar, ein milljón króna, greiðist úr ríkissjóði.

Dóm Landsréttar má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Segja dóminn leggja sig fram við að réttlæta ofbeldi gegn barni

Þrjú samtök sem beita sér fyrir velferð nemenda segja það reiðarslag að Héraðsdómur Norðurlands eystra hafi nýverið dæmt kennara sem sló til nemenda í vil. Þau segja orðfæri dómsins gildishlaðið og skora á dómstóla landsins að fylgja Barnasáttmálanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×